06.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

94. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Jónsson (S.-Múl.):

Eg geri ráð fyrir, að þessi þingsályktunartillaga verði samþykt. Eg fyrir mitt leyti verð að greiða atkvæði með henni, úr því sem komið er. En þó ætla eg að tala fáein orð um þetta mál.

Fyrst verður mér fyrir að spyrja: Hvað á þessi leikaraskapur að þýða? Þetta mikla áhuga- og velferðarmál þjóðarinnar er þó meira vert en svo. Þessi nefnd, sem starfað hefir lengri tíma en dæmi eru til um nokkra þingnefnd, hefir þó ekki afkastað öðru allan þennan óratíma, en að koma fram með þessa þingsályktunartillögu, þar sem skorað er á stjórnina, að leggja stjórnarskrárfrumv. fyrir næsta þing. Nefndinni hefði þó átt að vera vorkunnarlaust, að vinna betur að þessu máli. Það hefði mátt ætlast til, að eftir allan þennan tíma gæti hún verið komin að einhverri niðurstöðu, að hún gæti lagt til að samþ. frv. eða hafna því, eða þá að breyta því. En ekkert af þessu gerir hún.

Og svo taka þeir fram nokkur atriði, sem þeir ætlast til að standi í þessu væntanlega stjórnarfrumv. En öll þau atriði standa greinilega í þessu frumv., sem virðul. nefnd hefir legið á síðan í þingbyrjun, og hví hefir nefndin ekki viljað koma þessu fram nú?

Varla getur háttv. nefndarmönnum komið til hugar að halda því fram í alvöru, að stjórnin sé líkleg til að gera sér mikið far um að koma stjórnarskrárbreyting fram á næsta þingi. Engum dettur víst í hug, að þessi stjórn muni vilja stofna til þess fyrir sitt leyti, að kosningar fari fram, fyr en í síðustu lög. Meiri hlutinn óskar þess máske ekki heldur. Altsaman er þetta einber leikaraskapur, ekkert annað. — En liggur annars nokkuð á þessum stjórnarskrárbreytingum?

Á síðasta þingi, 1907, bar þáverandi minni hluti, með háttv. framsm. í broddi fylkingar, fram frumv. til laga um breytingar á stjórnarskránni, og fylgdi því mjög fast fram. Þá var verið að setja millilandanefndina á laggirnar, og héldum við, sem þá vorum í meiri hluta, því fram, að réttast væri og hentugast að bíða með stjórnarskrárbreyting, til þess er séð yrði, hvernig gengi með sambandsmálið. En nærri því var ekki komandi við minni hlutann. Framsm. hélt því fram, bæði í nefndaráliti og í þingræðunum, að fylstu ástæður væru til að hraða málinu sem mest. Ein aðal-ástæða hans var sú, að með því að nema burt ríkisráðs-ákvæðið svo nefnda, fengi íslenzku nefndarmennirnir hinn bezta bakhjarl og stuðning í sjálfstæðiskröfum vorum gegn Dönum. Og um kosningarrétt og kjörgengi kvenna og sömul. um afnám konungkjörinna þm. fórust framsm. svo orð, að það »þyldi enga bið«. Menn geta séð í þingtíðindunum, að eg fer hér rétt með.

Nú skýtur nokkuð skökku við. — Ríkisráðs-ákvæðið er ekki nefnt á nafn, og er svo að sjá, að það sé ekki talið mikilsvert lengur. Annars hefði nefndin líklega talið það upp með öðrum aðalatriðum í tillögum sínum, og nú má kvenréttur bíða og konungkjörnir þingmenn sitja sem fastast. Nú þykir framsm. ekkert liggja á.

Þessi aðferð öll er ósamboðin þinginu og ósamboðin málinu. Það er, eins og eg sagði áðan, leikaraskapur og ekkert annað.