06.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

94. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögumaður (Skúli Thoroddsen):

Út af orðum háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól), er hann sagði, »að meiri hlutinn hefði hindrað starf minni hlutans í nefndinni«, þá skal eg geta þess, að eg get als ekki kannast við, að þetta sé satt. — Eg verð að játa, að eg minnist ekki annars, en að háttv. þm. minni hlutans í nefndinni hafi tekið þar gangi málsins með kristilegri rósemi, og aldrei rekið eftir því nema als einu sinni, og það var þegar eg, er eg var kosinn formaður nefndarinnar, meðan »forseta-utananförin« stóð yfir, ákvað, sem slíkur, að sambandsmálið yrði að ganga fyrir, til að flýta fyrir því, svo að naumleiki tímans yrði því eigi til tálma á þinginu. Annars man eg ekki eftir, að minni hlutinn í nefndinni léti sér neitt óðslega, og þori að fullyrða, að svo var als ekki. Ef þeir hefðu viljað flýta fyrir stjórnskipunarlagabreytingunni, hefðu þeir líka getað lagt álit sitt fyrir þingið. Annars er alveg þýðingarlaust að vera að þrefa um þetta frekar.