20.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

8. mál, laun háskólakennara

Gunnar Ólafsson:

Þegar nefnd var kosin í þetta mál, bjóst eg við því, að hún mundi gera aðrar breytingartillögur við frumv. en raun hefir orðið á. Eg tek það fram þegar, að eg var á móti frumv., eins og það kom frá stjórninni og er á móti því enn, eins og nefndin leggur til að það verði. Það er engin þörf á að samþykkja þessi lög strax, með því að fé er ekkert veitt til háskólans enn þá. Það er alveg ónauðsynlegt að búa til lög, sem enginn veit hvenær muni koma í gildi. Eg er ekki á móti því, að lofa frumv. til 2. umræðu, en eg vil með engu móti að það verði afgreitt héðan úr deildinni.

Það eru ýms ákvæði frumvarpsins, sem eg er óánægður með, og þó aðallega það, hve há launin eru, eða geta orðið, þegar tímar liða. Vér verðum í þessu sem öðru að sníða okkur stakk eftir vexti, og vér höfum ekki ráð á að borga mörgum prófessorum 4800 kr. laun, eins og frumv. ætlast til að verði gert með tímanum. Það verður að miða launin við efnahag landsins yfirleitt, en ekki eingöngu við hve há laun tíðkast við útlenda háskóla.

Eg er því á móti frumv. eins og það er. En geymi mér að tala frekar um hin einstöku atriði þess, þangað til við 2. umræðu, ef til kemur.