09.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

55. mál, dánarskýrslur

Ráðherrann (H. H.):

Mér skilst að hinn háttv. þm. Mýr. (J. S.) hafi aðallega það á móti frv., að það leggi mönnum ekki nógu miklar skyldur á herðar. En það hefir þótt hér á þingi til þessa alt of mikill kostnaður að heimta læknisvottorð um hvert einasta dauðsfall. Þær skýrslur, sem hér er farið fram á eru ódýrar, og eru þó mikið betri en ekki neitt.

Gagnvart þeirri mótbáru gegn frv., að læknar búi í svo fáum sóknum, er þess að gæta, að sóknir þær, er læknarnir búa í eru svo mannmargar, að í þeim búa meira en helmingur landsmanna. Þannig eru allir kaupstaðir, kauptún og fjölbygð héruð komin undir ákvæði laganna, því læknar búa í þeim öllum. Með þessu fyrirkomulagi fengjum við með lítilli fyrirhöfn og litlum tilkostnaði nokkurn veginn áreiðanlegar skýrslur frá læknum, um fullan helming þeirra manna, sem deyja í landinu, og í þeim tilfellum, þar sem læknar eru ekki við, hafa prestarnir oftastnær skýrar skýrslur um dauðsföllin. Það er ekki Nd., sem stútað hefir þessu frv. áður, heldur var það Ed. — og vona eg að háttv. þm. þessarar deildar lofi því að ganga greiðan gang gegnum deildina, því að það hefir nú loksins komist klaklaust gegnum Ed.