11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

56. mál, byggingarsjóður

Ráðherrann (H. H.):

Eins og kunnugt er, þá var samþ. að byggja safnahúsið hér fyrir það verð, sem fengist fyrir fasteignir landssjóðs í Reykjavík, Arnarhól og Örfirisey, er hvorttveggja eru embættisjarðir, sem ekki gefa landssjóði beinan arð. Með því að selja þessar jarðir með hæfilegu verði mátti fá byggingarkostnað safnhússins greiddan og eftir því sem mönnum reiknaðist nálega 100 þús. kr. meira, sem svo átti að verja til að greiða kostnað við opinberar byggingar og hefir sumu af því fé verið eytt nú til aðgerðar á alþingishúsinu.

Í heimildarlögum þeim, sem lögð voru fyrir þingið 1905, var lágmarkið sett 3 kr. fyrir ? al. Nd. setti verðið upp í 4 kr. og Ed. í 5 kr. ? al. Afleiðingin af þessu hefir verið sú, að engin alin hefir selst til þessa dags.

Skylda mín er að leiða athygli þingsins að þessu, svo heimildarlögin geti orðið annað en pappírsgagn, og viðlagasjóður fái sitt fé. Stjórnarráðið áleit nauðsynlegt að færa lágmarkið niður í 2,50 kr. ? al., en Ed. hefir nú fært það upp í 3 kr. Það verður ekki mér heldur þinginu að kenna, ef fé ekki fæst inn til þess að borga safnabygginguna og lóðirnar liggja óseldar framvegis. Reyndar er mér þetta ekki kappsmál, hefi enga ástæðu til þess, en eg vil að eignum þessum sé varið samkvæmt því, sem ætlast var til upphaflega.

Kenningu háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.), um það, að lóðasala þessi sé eyðilegging fyrir bæinn, álít eg bábilju eina. Frá mínu sjónarmiði ætti það einmitt að vera hagur fyrir almenning, að lóðir fáist með hæfilegu verði, og því fer fjarri að lóðirnar í bænum alment falli í verði, þótt frv. þetta yrði samþ., því þær munu nú naumast seljanlegar fyrir það verð, sem í frv. er farið fram á að verði lágmarkið.

Þess ber að gæta, að frumv. veitir stjórninni aðeins heimild, en leggur henni enga söluskyldu á herðar. Það er að eins leyft, að það megi selja þær fyrir þetta verð, en annars má í engu tilfelli selja ódýrar en dómkvaddir menn meta, og það eitt ætti að vera næg trygging fyrir því, að lóðirnar yrðu aldrei seldar of lágt. Þetta er því ekki annað en hræðsla hjá háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.), og þótt hann segi, að allur fjöldi atkv. á þingmálafundinum hér í Reykjavík hafi verið greiddur móti frv. sannar það ekkert. Málið hefir þar verið skýrt frá einni hlið, og mér er nær að halda, að ef það væri skýrt fyrir mönnum hér frá fleiri hliðum, þar á meðal frá þjóðfélagslegu sjónarmiði, að þá mundi alþýða ekki slá hendinni móti því.