11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1464 í B-deild Alþingistíðinda. (1994)

56. mál, byggingarsjóður

Magnús Blöndahl:

Eg skal ekki verða margorður í þessu máli, og því síður sem eg geng út frá því sem gefnu að deildin álíti frumv. þetta einungis til þess fallið að vera skorið niður. — Samþingismaður minn, háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) tók líka ljóslega fram og sýndi fram á galla frv., með ómótmælanlegum rökum; hann tók það rækilega fram, að ef frumv. yrði samþykt, þá mundi það hafa í för með sér verðfall á öllum lóðum hér í bæ, til stórvandræða fyrir almenning. Hæstv. ráðh. (H. H.) tókst ekki að hrekja þetta, sem heldur ekki er undarlegt, vegna þess að það er óhrekjanlegur sannleikur.

Eg vil annars benda á, að það virðist undarleg aðferð hjá stjórninni, að koma fram með frumv. þetta einmitt nú, þegar hart er í ári; hví kom stjórnin ekki með þetta þegar betur blés og kringumstæðurnar voru ekki eins erfiðar og nú? Þá hefði það vafalaust haft minni áhrif á lóðarverðið og almenningur þolað það betur.

Hæstv. ráðh. (H. H.) tók það fram, að ekkert hefði selst af lóðinni á Arnarhólstúninu. Þetta er mér vitanlega alveg rétt, en eg vil leyfa mér að spyrja, hvort það sé eingöngu verðinu að kenna. Eg held það sé ekki svo, heldur meira að kenna ýmsum skilyrðum, sem sett hafa verið. Það er víst t. d. almæli hér í bæ, og eg hefi fengið orð kunnugra manna fyrir því, að þar fengist ekki að byggja annað en skrauthýsi — stórhýsi, en það geta engir nema peningamenn. Ef þetta er rétt, þá undrar mig ekki þó ekkert hafi selst enn þá, því að fæstir munu svo peningum búnir, að þeir geti ráðist í svo kostnaðarsamar byggingar. Eg gæti farið lengra út í þetta mál, ef ástæða væri til, því að mér er kunnugt um, að lóðir hafa verið falaðar á þessum stað og ekki fengist, nema þá fyrir þrefalt verð við virðingarverðið.

Annað atriði í þessu máli, sem einnig hindrar lóðasöluna, er það, að enn mun ekki búið að ákveða að fullu, hvar göturnar eigi að liggja um túnið. Enn fremur má nefna það, að sumar lóðirnar, eins og þeim nú hagar til, eru svo illa lagaðar, að öðrum en stórefnamönnum mun ekki fært að kaupa þær.

Eg skal taka það fram, að í lögunum standa engin ákvæði um það, að stórhýsi skuli byggja á Arnarhólstúninu, en það er á vitund allra manna; það mundi víst ekki þykja sæmilegt eða glæsilegt, að sjá rísa upp smáborgarabýli á hlið við opinber stórhýsi, sem þar eiga að koma. Eg held mönnum þætti það ærið mislitt.

Annars get eg ekki séð neina hættu á ferðum, þótt ekkert hafi selst af lóðunum enn þá; þær liggja svo vel, að engin hætta mun á ferðum með að þær seljist ekki, ef bærinn á framtíð fyrir höndum, en eg verð að álíta það mjög hættulegt fyrir þennan bæ, ef landssjóður færi að ganga á undan í því efni að færa lóðaverðið niður. Það eitt út af fyrir sig ætti að vera nægilegt til þess að greiða atkv. á móti frumv., og vonast eg því eftir, að háttv. þingdeild felli það.