11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (1995)

56. mál, byggingarsjóður

Pétur Jónsson:

Eg skil ekki mál þetta til fulls og vildi því gjarna fá upplýsingar í því. Eitt virðist mér þó koma berlega fram í umræðunum, að verð lóðanna hefir verið of hátt til þess að þær væru seljanlegar, því landsstjórnin hefir haft umboð til þess að selja lóðirnar og þingið hefir ætlast til að þær væri seldar. En hið lögákveðna lágmark lóðaverðsins hefir hamlað því.

Háttv. þm. Rvk. álíta hættulegt vegna lóðaverðs í bænum að leysa þetta sölubann, svo lóðir landssjóðs velti inn á lóðamarkaðinn. Eg get ekki dæmt um þetta. Mér finst þó það óeðlilegt, að meina landinu að gera verð úr eignum sínum, nema öðrum lóðaeigendum í bænum væri sett sömu takmörk, og eg vil leyfa mér að spyrja hina háttv. þm. um það, hvort nokkur sams konar ákvæði séu til hér í bæ, sem ná til prívat-lóða og ákveða lágmark og hámark á verði þeirra; ef svo væri, þá gæti eg betur felt mig við, að landssjóði væri sett þessi takmörk á að koma lóðum sínum í verð.

Af þessum ástæðum, sem eg hefi bent á, vil eg leyfa mér að stinga upp á að nefnd sé skipuð í málið til að athuga það.