11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

56. mál, byggingarsjóður

Pétur Jónsson:

Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) hefir ekki skilið mig rétt. Eg gerði fyrirspurn um það, hvort einstakir menn hér í bænum og bærinn sjálfur gæti ekki sett verð á sínum lóðum svo lágt, að það gæti orðið til skaða fyrir bæinn í heild sinni. Væri svo, virtist mér það hart fyrir löggjafarvaldið að leggja þau höft á sjálft sig, að það gæti ekki selt lóðir sínar, þegar það þarf á að halda. Hið opinbera þarf þess við að koma lóðum þessum í verð, og væri kátlegt, að þingið gerði landinu örðugra um söluna, en keppinautum þess. Þótt nú lágmarkið sé fært niður, fæ eg ekki betur séð, en að trygging sé í lögunum sjálfum fyrir því, að lóðirnar verði eigi seldar til skaða fyrir landssjóð. Þar eru samskonar tryggingar og í þjóðjarðasölulögunum: mat dómkvaddra manna. Eg sé ekki hvaða ástæða er til þess, fyrir hinn háttv. meiri hluta, að vantreysta tilvonandi stjórn í þessu efni, að hún selji lóðir þessar fyrir lægra en þær eru verðar. Lágmarkið er of hátt. Það sést bezt á því, að ekki er hægt að selja lóðirnar, nema það eigi að lögleiða alment söluhaft á lóðum hér í bænum. Það virðist því ekki veita af að athuga málið í nefnd.