11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (2000)

56. mál, byggingarsjóður

Magnús Blöndahl:

Eg vil mæla á móti því, að vísa málinu til nefndar, engin þörf á slíku. Ef menn athuga í rólegheitum hvernig þessari lóð er háttað og bera það saman við aðrar lóðir, þá getur ekki nokkrum manni blandast hugur um það, að þessa lóð, sem hér er um að ræða, á ekki að selja undir 5 kr. ? al. Lóðir fyrir neðan læk hafa verið seldar fyrir 10 —12 kr. ? al., sem þó eru engu betri en Arnarhólslóð. Hvernig stendur þá á því, að ekki er hægt að selja Arnarhólslóðina fyrir 5 kr. ? al., sem þó er hjartað úr skákinni? Það er því ekki rétt, að verðið á þessari lóð hafi verið spent upp úr öllu valdi. Eg gat þess áður, að eg vissi til þess að maður hefði falað lóð á Arnarhólstúni, en fékk hana ekki, nema hann borgaði 15 krónur fyrir ? al. hverja, (Ráðherrann H. H.: Þekki ekki það dæmi), gat ekki fengið keypt með öðru móti, en að greiða þrefalt gjald við það, sem þá var heimilt að selja fyrir. Hafi svipað tilfelli og þetta oft komið fyrir, er ekki að undra, þótt lítið hafi selst. Eg þarf ekki að svara háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), er hann spurði um, hvort lágmark væri sett á aðrar lóðir hér í bænum. Þessi fyrirspurn á ekki hér við. Einstakir menn ráða því, hvað þeir vilja selja sína eign, því getur enginn samanburður átt sér stað — þar er hér er að ræða um lóð landsins, er liggur um miðbik bæjarins. Mín sannfæring er það, að það sé hreinasta hneysa að selja Arnarhólslóðina fyrir minna en 5 kr. ? al., álít það svo lágt verð, að það taki ekki tali að selja hana fyrir minna, og eg er viss um, að það líða ekki mörg ár, þangað til búið verður að selja hana, þótt ekki verði hrapað að þessu. Eg vona að hin háttv. deild skipi ekki nefnd í þetta mál, heldur felli það þegar við þessa umr. Eg álít að þingið hafi annað að gera með sinn dýrmæta tíma, en að jagast um mál, sem ekki eru meira verð en þetta mál er, að minsta kosti í mínum augum.