14.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1472 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

56. mál, byggingarsjóður

Flutningsmaður (Björn Kristjánsson):

Eg heyri það að háttv. meðflutningsm. minn hefir tekið sinn hluta tillögunnar aftur. Sömuleiðis skal eg geta þess, að það er eftir ósk héraðslæknisins að þessi tillaga var borin upp hér í deildinni. Það hefir hingað til verið regla þingsins að stuðla til þess að starfsmenn landsins og þá sérstaklega læknar gætu verið á þeim stöðum, þar sem almenningur ætti sem hægast með að ná í þá.

Hér stendur svo á, að mjög örðugt er að fá hentugan stað hér í bænum til að byggja á og þess vegna fer héraðslæknirinn fram á, að sér verði leigð lóð úr Arnarhólstúni. Hér er því hvorki um styrk eða lánbeiðni að ræða. Læknirinn vill borga 10 aura í leigu fyrir hverja ferh. alin, og getur það ekki, borið saman við það sem nú er goldið af lóðum hér í bænum, 3 aurar af ferh. alin af bygðri lóð, en ¼ af óbygðri — skoðast annað en fullsæmileg borgun.

Menn kunna nú að segja, að þetta sé ekki í samræmi við það, að nýlega var felt hér í deildinni að selja ekki þessa lóð fyrir minna en 5 kr. feralin; þó vil eg benda á það, að engin líkindi eru til þess, að lóð þessi seljist fyrst um sinn fyrir þetta verð, og óhætt má gera ráð fyrir, að seinasti bletturinn muni ekki verða seldur fyr en eftir svo sem 20 ár. Nú skal eg benda á það, að eftir 10 ár verður læknirinn búinn að borga 1034,33 kr. með vöxtum — eða ? hluta af söluverði lóðarinnar. Þetta getur því ekki orðið til skaða, þvert á móti hlýtur landsjóður að græða á þessu. Eg bendi að eins á þetta til að fyrirbyggja misskilning.

Tíminn 99 ár er miðaður við það, sem er á Englandi, þar sem menn hafa þessa reglu og er farið eftir því sem vel bygt timburhús á að geta staðið, lengri tími ef um steinhús er að ræða.

Eg ímynda mér, að allir verði mér samdóma um það, að nauðsynlegt sé að héraðslæknirinn geti búið á þeim stað í bænum, þar sem flestir eigi hægast með að ná til hans, — og þar sem hann ekki getur fengið lóð á viðunanlegum stað í bænum, nema með afarkostum, þá vona eg að þingið verði svo sanngjarnt að veita honum þetta, sem hann fer fram á, einkum þar sem það er peningalegur gróði fyrir landssjóðinn.