14.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1479 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

56. mál, byggingarsjóður

Flutningsmaður (Björn Kristjánsson):

Eg ætla að taka það fram, að mér er þetta ekkert kappsmál. En það hafa komið fram ýmsar fjarstæður og mótbárur, er ekki eru á rökum bygðar, og verð eg að svara þeim nokkrum orðum. Þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði að þessi till. færi í bága við gildandi lög. Eg bar hana að vísu undir hann og dróg hann í efa, að svona löguð heimild nægði. Eg leitaði líka álits fleiri lögfróðra manna og leist þeim hún í alla staði góð. Minn skilningur er sá, að þó að stjórninni sé gefin heimild til að selja lóðir fyrir ákveðið verð, þá hafi þingið ekki afsalað sér neinum rétti yfir lóðunum, sem óseldar eru á hvaða tíma sem er. Og hér er ekki um neina sölu að ræða heldur leigu á lóð, sem enginn veit um, hvað lengi getur dregist að fá kaupanda að. Það er gott og gagnlegt að geta leigt lóð strax, er getur annars ekkert gefið af sér í mörg ár, því það verður að gæta þess, að þessi eign gefur ekki af sér neina vexti, svo að vaxtareikningur háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) á hér ekki við. Það er bæði mitt álit og lögfróðra manna hér á þinginu, að þetta sé fremur gróði en tap fyrir byggingarsjóð. Ef lóðin t. d. ekki selst á fyrstu 10 árunum, þá hefir læknirinn greitt í leigu talsvert á annað þúsund krónur og á lóðin öll þó eigi að kosta meira en 5000 kr., ef hún er seld.

Svo sný eg mér að 2. þm. Rvk (M. Bl.), er sagði að vel færi um læknirinn, þar sem hann væri og enga nauðsyn bæri til að hann flytti sig úr þeim stað, enda kvað hann fleiri embættismenn mundu eftir fylgja t. d. bæjarfógeti o. fl. Þá er þar til að svara að eg veit ekki til að læknirinn hafi neinn eignarrétt á húsi því, er hann býr í, og eins veit eg ekki til, að háttv. þm. geti veitt honum þann rétt. Bæjarfógeti er afarilla settur að vera upp í Þingholtum. Það er t. d. örðugt fyrir útlenda skipstjóra að finna hann þar. Hann ætti því að búa sem næst sjónum og sé eg ekkert á móti því að honum væri einnig leigð lóð á þessu svæði, ef hann færi fram á það. Mér er ómögulegt að fallast á, að allir geti heimtað leigurétt á lóðum þessum, þó héraðslækninum væri heimilað að búa á þessum stað, bæjarbúum til hagræðis. Verstu öfgarnar og fjarstæðurnar hefi eg leitast við að leiðrétta og vonast eftir að þær leiðréttingar verði teknar til greina.