23.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1482 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

95. mál, breyting á Þingvallaviðauka

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Þetta frumv. er fram komið af sömu ástæðu, sem till. sú, er síðast var á dagskrá (þingsál.till. um nefnd til þess að íhuga alsherjar kjördæmaskiftingu), það er að segja, af því, hve ójafnt er farið um skipun kjördæma.

Þegar aukið var við 4 þingmönnum hér á árunum varð Reykjavík út undan og fékk að eins bætt við 1 þingmanni, í stað tveggja, sem sanngjarnt var, en svo fékk Seyðisfjörður 1 þingmann.

Eins og nú á stendur mun eg ekki fylgja fast fram þessu frv. En ekki get eg að því gert að benda á, að í Norður-Múlasýslu eru um 400 kjósendur með 2 þingmenn, Seyðisfirði 144 með 1, Austur-Skaftafellssýslu 136 með 1, Suður-Múlasýslu 600 með 2, Vestmanneyjum um 200 með 1 og í Vestur-Skaftafellssýslu 216 með 1 þingmann. Á öllu þessu svæði eru því 1700 kjósendur með 8 þingmenn, en í Reykjavík eru um 1800 kjósendur með að eins 2 þingmenn. Það sér hver og einn, hver sanngirni er í því fólgin. Samt mun eg ekki nú halda þessu frv. til streitu, eins og eg hefi getið um, og má þingd. ráða, hvort hún fellir það eða ekki. Annars get eg ekki stilt mig um að geta þess, hversu erfitt Reykjavík veitist jafnan að ná rétti sínum hér á alþingi, þvert á móti því sem tíðkast í öðrum löndum um höfuðstaði landanna. Það er als staðar talið sjálfsagt að veita forréttindi höfuðstöðunum en draga ekki af þeim réttindi þeirra.

Eg tel réttast að vísa frv. til nefndarinnar í næsta máli á undan.