27.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

8. mál, laun háskólakennara

Gunnar Ólafsson:

Eg gat þess við 1. umr. málsins, að eg væri frumv. mótfallinn. Bæði fanst mér launin of há, og þar til sá eg ekki ástæðu til að flýta málinu, vegna þess að háskólinn á ekki að taka til starfa í bráð.

Mér finst réttara að biða með þessi lög þar til þeir tímar koma, að þau eiga að koma í gildi, enda verða þau að vera samkvæm þeim tíma, er þau eiga að gilda fyrir. Eg sé því ekki ástæðu til að bréf-festa þau nú.

Það sem skilur milli mín og háttv. framsögumanns er það, að hann hugsar sér, að landið leggi háskólanum til marga kennara, eins og í útlöndum, sem hafa lítið að gera, en há laun. Þetta er auðvitað vel meint, en kemur ekki að fullu gagni nema fyrir þá stétt manna, sem nýtur af, og hún er svo fámenn, að þetta er engin þjóðarnauðsyn.

Eg játa það, að það er rétt að hækka laun dósentanna úr 2400 upp í 2800 kr. En eg get ekki fallist á, að laun prófessoranna eigi að komast upp í 4800 kr. eftir nokkur ár. Hins vegar getur það verið, að byrjunarlaunin séu nokkuð lág. Þau mættu gjarnan vera 3600 kr. með hækkun upp í 4000 kr. Það væri fullsómasamleg borgun.

Eg held að forstöðumenn æðri skólanna, sem hafa samið þetta frumvarp, eftir því sem stjórnin segir, hafi gert helzt til mikið úr þeirri hækkun á öllum nauðsynjum, sem þeir eru að tala um, og sem þeir hafa fengið einn bankastjórann til að reikna út fyrir sig. Og sýnist mér ekki þörf þess vegna að hækka laun þeirra manna, sem við skólana eiga að vinna, einkum þegar þess er gætt, hve laun embættismanna fyr á tímum voru afskaplega há í hlutfalli við tekjur annara manna hér á landi. Og eg hefi heldur ekki orðið þess var enn þá, að nokkur skortur væri á embættismönnum vegna launanna, þvert á móti, sem vonlegt er. Mér finst því lítil ástæða til, að leggja sérstakt kapp á að hafa laun þessara embættismanna miklu hærri en geti átt sér stað, eftir því sem aðrir embættismenn fá í þessu landi. Það getur vel verið, að hagur landsjóðs verði svo breyttur eftir nokkur ár, að hægt verði að samþykkja svona há laun handa prófessorunum. Ef svo skyldi fara, þá sýndist mér full ástæða til þess að láta frumvarp þetta bíða, því að eftir því sem fjárhagurinn er nú, er það ómögulegt, að mínu áliti, að ausa sérstaklega fé í þessa menn, sem verða að sjálfsögðu að sæta tiltölulega sömu kjörum og aðrir embættismenn landsins.

Háttv. 5. kgk. þm. talaði um, að störfin hefðu aukist. Það má vel vera. En ef litið er t. d. til lagaskólans, þá er það nýr skóli, og getur tæplega verið orðinn svo umfangsmikill enn þá, að þurfi að bæta við manni með háum launum, þar sem nú eru tveir nýtir og duglegir menn við kensluna. Enn fremur er talað um, að losa þurfi landlækni við kensluna á læknaskólanum. Hér kemur sama fram, að koma því svo fyrir, að hver hafi sem minst að gera, en sem hæst laun. Eg býst varla við að landlæknir hafi svo mikið að gera, að sjá um þessa 43 lækna, að hann geti ekki komist til að kenna 1—2 tíma á dag fyrir því. Sem stendur gegnir landlæknisembættinu duglegur ungur maður, og sýnist mér alls ekki mega taka tillit til slíkra kvartana.