13.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (2053)

68. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Ráðherrann (H. H.):

Það er als ekki hægt að láta embætti standa óveitt árum saman til þess að bíða eftir því, ef ráðherranum skyldi verða steypt. Það getur auðveldlega staðið svo á, að ekkert embætti sé til, er fráfarandi ráðherra getur tekist á hendur, þegar hann fer frá, og að hann hafi ekkert annað en eftirlaunin við að styðjast. Ákvæði þetta getur einnig orðið mjög ranglátt gagnvart mönnum, sem als ekki hafa verið embættismenn áður. Maðurinn getur setið svo lengi í ráðherraembættinu, að honum eftir þeim reglum, sem gilda um alla aðra embættismenn landsins, mundi bera miklu hærri eftirlaun fyrir þá þjónustu, heldur en þessar 1000 kr., sem frumv. fer fram á. Eg sé ekki ástæðuna, hvers vegna þetta embætti á að vera lakar sett en öll önnur embætti, og er hætt við, að slíkt verði ekki til að bæta fyrir því, að völ verði á hæfum mönnum til þess.