01.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1510 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

97. mál, heiti á alsherjarstofnunum

Jón Ólafsson:

Háttv. flutnm. (J. Þ.) sagði, að ekki væri það tilgangurinn að stofnanirnar hétu mörgum nöfnum í senn. En eg get ekki séð t. d. að önnur utanáskrift til landssjóðsgjaldkera væri rétt eftir frumv. að dæma, en sú, að hann væri kallaður »herra ríkisféhirðir, þjóðféhirðir eða ríkisgjaldkeri«. Enginn annar en alþingi og konungur hafa löggjafarvald, og þá er löggjafarvaldið hefir hér sagt, að hann skuli svo heita, hefir enginn einstaklingur rétt til að breyta því eða stytta það. Flutnm. verður því að breyta frumv. og bezt er að hann beri breytingartill. strax upp. Háttv. þm. sagði, að allir vildu viðurkenna að Ísland væri ríki; hann hefir víst ætlað að segja eitthvað annað, því að þótt allir viti, að Ísland hefir eitt sinn verið ríki, þá vita líka flestir, að það er það ekki að lögum nú. Einmitt fyrir það erum vér að berjast fyrir, að það verði það á ný.