17.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

9. mál, ellistyrkur

Ráðherra (H. H.):

Þetta frumvarp hefir legið áður fyrir alþingi. Stjórnin lagði það á síðasta þingi fyrir Nd. Þar var það ítarlega rætt og afgreitt til Ed., en komst hér ekki til umræðu vegna naumleika tímans.

Nd. breytti stefnu frv. þannig, að horfið var frá að takmarka sig við ellistyrk. Fyrirsögn frv. var breytt og nafni styrksins í »öryrkjastyrk«, og heimilað að veita af sjóðunum styrk fátækum öryrkjum, ef þeir væru að eins fullra 18 ára.

Þó að engum væntanlega blandist hugur um, að það væri æskilegast að geta veitt öllum styrk, er slíks þurfa, þá hefir stjórnin þó ekki getað álitið breytingar Nd. til bóta, og það af þeirri einföldu ástæðu, að fjármagn það, sem hér er um að ræða, getur eigi verið svo víðfaðma, ef að gagni á að koma. Það virðist nauðsynlegt að takmarka verksviðið, ef styrkurinn á ekki að renna út í sandinn og hverfa, verða að eins að viðbót við fátækrastyrk eða styrkur til sveitarsjóðs, í stað þess að hjálpa heiðarlegri fátækt, sem er að berjast áfram án fátækrastyrks. Þegar sjóðunum vex fiskur um hrygg, má færa út kvíarnar. En þegar um réttláta takmörkun er að ræða, virðist réttast að byrja á því að styrkja heiðarlega elli, og því er frv. nú lagt fyrir þingið aftur, í öllum aðalatriðum samhljóða stjórnarfrv. 1907.

Eg skal ekki tefja fundinn frekar í þetta skifti, og leyfi mér að eins að skírskota til þess, sem fram kom í málinu á síðasta þingi, og þeirra athugasemda, sem nú fylgja frv., um leið og eg læt í ljósi þá von mína, að háttv. þingdeild aðhyllist stefnu þess, viðurkenni góðan tilgang þess og leyfi því fram að ganga.