10.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1520 í B-deild Alþingistíðinda. (2083)

98. mál, Lambhagi og Hólmur

Björn Sigfússon:

Eg ætla ekki að tala um það hvort, rétt sé að selja þær jarðir, sem hér er um að ræða, og ekki heldur um það, hvort verðið, sem sett er á þær, sé hæfilegt, til þess hefi eg ekki kunnugleika. En eg vildi gera grein fyrir áliti mínu á þjóðjarðasölumálinu yfirleitt, og drepa á framkvæmd þjóðjarðasölulaganna hingað til.

Fá eru þau lög, sem jafnmikið hefir verið vandað til að undirbúa sem þessi. Eftir margra ára umræður í þinginu um þjóðjarðasölu, var skipuð milliþinganefnd, sem undirbjó málið og kom fram með frumv. um það. Sú nefnd krufði málið til mergjar, og færði mörg og skýr rök fyrir, að leiguliðaábúðin hefði hér eins og annarstaðar, þar á meðal í Danmörku, reynst illa, reynst þrepskjöldur í vegi fyrir að landið væri ræktað og grætt upp. Það væri einmitt sjálfsábúðin, sem mundi verða bezta og styrkasta hvötin til að efla og bæta landbúnaðinn, flýta fyrir að græða landið. Stjórnin og hæstv. ráðh. var á sama máli og lagði frv. fyrir þingið 1905. Þingið leit eins á málið, vildi hlynna að sjálfsábúðinni og afgreiddi lögin.

Í lögunum eru settar grundvallarreglur fyrir mati jarðanna. í 12. gr. er stjórninni heimilað að kveðja til yfirmatsmenn, og skil eg það svo, að það skuli gera, ef eitthvað þykir athugavert við sölu á hverri einstakri jörð. Þeir láta líka uppi álit sitt um hvort rétt sé að selja. Að öðru leyti heyrir það atriði undir úrskurð sýslunefndanna.

Að mínu áliti er það því skýrt, að meining þingsins með þjóðjarðasölulögunum er að skora á stjórnina að selja þjóðjarðirnar, og að stjórnin hafi ekki heimild til að neita að selja jarðir, ef sýslunefnd mælir með því, nema því aðeins að þeir menn, sem nefndir eru í 12. gr. ráði eindregið frá sölunni, þá getur stjórnin til bráðabirgða úrskurðað, að ekki beri að selja að svo stöddu. Komi þetta fyrir, tel eg sjálfsagt, að kaupbeiðandi fái málið til umsagnar. Meðal annars þarf hann að fá tækifæri til að hrekja það, sem hlutdrægur umboðsmaður kann að hafa sagt um málið.

Minn skilningur er sá, að aðalreglan eigi að vera að selja eftir matsverði, þótt eg kannist fyllilega við það, að svo geti staðið á, að stjórnin hiki með að selja við því verði, fyrir því að hún á að standa á verði fyrir því, að hvorki þeim sem falar jörðina sé óréttur ger, né jörðinni kastað út fyrir of lágt verð. En að selja jörð með handahófsverði álít eg ekki rétt. Slík aðferð hefir oft valdið óánægju, sem von er.

Hæstv. ráðh. gat þess, að frumv. þetta hefði verið felt á síðasta þingi með miklum meiri hluta atkv. Það hlýtur að vera misminni hjá hæstv. ráðh., því að í Nd. var málið felt með 11 : 11 atkv., af því 2 þm. voru ekki á fundi, sem báðir voru með sölunni, en í Ed. var því skotið svoleiðis úr heiminum, að það kom aldrei til atkv.

Mér finst full ástæða til að málið hafi komið fram aftur, og álít því heppilegast að vísa því til nefndar þeirrar, er skipuð hefir verið til þess að íhuga landbúnaðarmálefni, finst málið þannig, að það eigi heima í þeirri nefnd. Eg er hinum hæstv. ráðh. sammála um það, eins og hann leit á málið í upphafi, að þessi stefna, að selja ábúendum jarðir sínar, sé eitthvert hið mikilsverðasta spor, er vér höfum stigið til að hvetja menn til að græða upp landið, og eg álít, að ef rétt og hyggilega er að farið, þá muni það reynast öflug lyftistöng framfara og farsældar, eins og löggjafarnir ætluðust til. En því fremur er það áríðandi að hindra ekki þennan góða tilgang laganna, með því að standa í vegi fyrir, að ábúendum verði seldar jarðir sínar. Sé engin jörð seld nema rándýrt, spillir það líka tilganginum, því að þá verður kaupandi vanmegnugur að leggja fé í að bæta jörðina.