10.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1529 í B-deild Alþingistíðinda. (2089)

98. mál, Lambhagi og Hólmur

Jón Jónsson (S.-Múl.):

Það var út af því, sem háttv. 2. þm. Húnv. (B.S.) sagði, að eg bað um orðið. Eg held það hafi ekki verið rétt, sem hann hafði eftir mér, að það væri þjóðjarðasölunni að kenna hið lága verð á jörðum hér á landi, eða að minsta kosti hefi eg ekki ætlað að segja það, heldur hitt, að þjóðjarðasalan héldi verðinu niðri á jörðunum, og á því er talsverður munur.

Mér þótti vænt um að heyra háttv. þm. segja, að skaði væri að því, hvað jarðir væru í lágu verði og eg ímynda mér að þm. geti skilist það, að það sem eg sagði áðan sé rétt, að því er þjóðjarðasöluna snertir. Það er algilt lögmál um allan heim, að því meira sem framboðið er á hvaða vörutegund sem er, því lægra er verðið. Framboð jarða, eða tala þeirra jarða, sem selja á, hefir margfaldast þegar þjóðjarðirnar allar voru boðnar fram, og sala framboðinna jarða hefir aukist mjög mikið; það er því ekki nema sjálfsagt, að þetta hlýtur að hafa áhrif á verðið og halda því niðri.

Háttv. þm. Húnv. (B. S.) sagði, að það væri undarlegt, að þeir, sem væru umboðsmenn, væru á móti þjóðjarðasölunni. Eg var umboðsmaður í 5 ár, en þó minnist eg þess ekki, að eg skifti mér af þjóðjarðasölunni. En einmitt vegna þeirrar þekkingar, sem eg fékk á málinu á meðan eg var umboðsmaður, sannfærðist eg um það, að hún væri óheppileg og hefi síðan haldið fram þeirri skoðun, og eg vil taka það fram, að það var ekki vegna þess, að eg tímdi ekki að missa af umboðslaununum.

Háttv. flutnm. (B. Kr.) var að lýsa yfir því, að við værum á gagnstæðri skoðun um verð jarða. Eg hefi nú svarað háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) og vonast eftir, að það svar geti einnig verið nægilegt fyrir háttv. flutnm. — Eg vil þá til frekari skýringar leyfa mér að nefna eitt dæmi. Fyrir þinginu liggur nú frumv. til heimildarlaga í fyrir stjórnina, til þess að selja lóðir hér í Reykjavík fyrir lægra verð en heimilt er nú. Þetta frumv. hefir mætt hér í bæ mjög mikilli mótstöðu, og eg verð að álíta, að legið hafi heilbrigð hugsun til grundvallar fyrir þeim ástæðum, sem færðar hafa verið og mér finnast þær að minsta kosti skiljanlegar. Eg álít nefnilega, að á hættulegum fjárhagstímum, eins og nú eru, verði löggjafarvaldið að vera varkárt mjög í öllum afskiftum sínum af því, er snertir viðskifti manna og viðskiftalíf. En það er skiljanlegt, að því meir sem fram er boðið af lóðunum, því lægra verður verðið, og því er næsta skiljanlegt, að þeir sem eiga lóðir hér líti óhýru auga til undirboðs frá landstjórninni.