10.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

98. mál, Lambhagi og Hólmur

Flutningsmaður (Björn Kristjánsson):

Eg skal leyfa mér að svara því, sem háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) sagði um lóðasöluna. Það verð, sem sett var á lóðirnar í Arnarhólstúninu var algerlega sett af handahófi og stendur því alt öðruvísi á með þær, en jarðir sem metnar eru og hafa verið leigðar í fjölda ára; þar er hægt að nota leigumálann sem mælikvarða fyrir matinu. Það álít eg líka að sé rétt, því jarðirnar gefa ekki meiri arð nú sem stendur, hvað sem kann að verða; og verð hvers hlutar, og þá um leið jarðanna, verður að miðast við þann arð, sem fæst af honum. Hver hlutur á að borga sig, og annað verð er ekki og getur aldrei verið sannvirði.

Eg hefi flutt þetta frumv. til þess að þingið geti dæmt um, hvort virðingarverð er of lágt og að það þá geti gefið álit um það. En eg verð að skoða þetta mál þannig, að ef þingið vill ekki selja í þessu tilfelli, að þá eigi það að nema þjóðjarðasölulögin úr gildi, því séu jarðirnar að eins seldar ettir geðþekni stjórnarinnar, þá hlýtur margur að verða fyrir misrétti.

Viðvíkjandi gullinu í Mosfellssveit vil eg benda háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) á, að samkvæmt því sem hann sagði, ætti einnig að hætta við að selja allar lóðir í Reykjavík, því í miklu af grjóti hér er gull. Hvernig eiga nú Reykvíkingar að fara að? Eg hefi rannsakað ýms sýnishorn úr kvarsinum í Þormóðsdal, sem ekki hafði meira gull en víða finst hér í grjótinu (dólerítinu) í Reykjavík. Sannleikurinn er sá, að það finst næstum alstaðar á Íslandi gullvottur, en alstaðar er of lítið af því, svo mjög vafasamt er, hvort það borgar sig að vinna það.

Eg vil að lokum bæta því við, að ef rétt er að hætta við að selja einstakar þjóðjarðir vegna þess að þar er gull, að þá ætti að hætta við þjóðjarðasölu með öllu.