16.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (2094)

99. mál, sala þjóðjarða

Stefán Stefánsson:

Eg ætla að eins að taka það fram, að ef ekki hefði verið til önnur lög um þetta efni, en þjóðjarðasölulögin, þá hefði óefað verið mikil réttarbót að slíkum lögum sem þessum, en nú höfum vér lögin um forkaupsrétt leiguliða, sem gera eigendum jarða skylt að láta ábúendur sitja fyrir kaupum á sínu ábýli, og að þeim frá gengnum, því sveitarfélagi, sem jörðin liggur í. Eins og þetta frumv. er nú orðað, missist þessi réttur ábúenda og sveitarfélaga, þar sem það er skýrt tekið fram, að gangi jörðin »úr sjálfsábúð kaupanda næstu 10 ár« þá eigi landssjóður kaupréttinn.

Eg er þess vegna eindregið mótfallinn, að frumv. þetta gangi nefndarlaust í gegn um allar umr. hér í deildinni, og leyfi mér að leggja til, að því verði vísað til landbúnaðarnefndarinnar.