11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (2109)

70. mál, Skálholt

Hálfdan Guðjónsson:

Mál þetta var nokkuð rætt við 1. umræðu og skal eg því að eins nú fara lítið eitt út í einstök atriði málsins. Hér er verðið ekki ákveðið vegna þess að þegar eg átti tal við eigendur þessarar jarðar vildu þeir ekki selja eða lofa að selja, ekki einu sinni að gefa landinu forkaupsrétt, enda hefði það ekki haft svo mikið að þýða, þar sem leiguliðar nú lögum samkvæmt hafa forkaupsrétt. Verðið var þess vegna ekki hægt að ákveða, því að jörðin var ekki föl. Enda þótt frv. að eins hljóði upp á þessa einu jörð væri þó ástæða til fyrir landið að kaupa fleiri, en Skálholt er þó næst Reykjavík og Þingvöllum merkilegast að sögu og ríkast af fornum menjum. Það er sárgrætilegt, já, hörmulegt, hve ræktarlausir vér erum við alt fornt og þjóðlegt, hve illa oss ferst með helgustu og endurminningarríkustu staði landsins, en þótt augu sumra Íslendinga séu ekki opin fyrir því, þá hafa útlendingar, sem hingað koma, oft rekið augun í það.

Eg hefi t. d. bréf með höndum frá einum góðkunnum Þjóðverja, sem ferðast hefir hér á landi, Paul Hermann. Hann segir að hann »skammist sín niður fyrir allar hellur fyrir hvernig farið sé með Skálholt. Svona er nú þeim merkisstað komið, sem var hellubjarg íslenzkrar kristni um margar aldir. Mér rennur til rifja ræktarleysi lifandi kynslóða«.

Já, sannarlega, svona er ástandið. Góðir menn fá skömm á oss. Því er leitt, ef þetta gæti eigi verið mörgum góðum Íslending til eftirþanka.