26.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

9. mál, ellistyrkur

Gunnar Ólafsson:

Þetta er mikilsvert mál, sem hér liggur fyrir, og vildi eg að sem bezt yrði til þess vandað í alla staði. Eg get vel felt mig við flestallar breyt.till. nefndarinnar. En viðvíkjandi breyttill. við 11. gr. skal eg þó taka fram, að hún er að mínu áliti ekki til bóta. Eg sé ekki betur en að sjóðurinn geti veitt 2/3 af árstekjunum svo sem frumv. gjörir ráð fyrir. Hann ætti að vaxa nægilega ört samt sem áður, því að samkvæmt þessu frumv. aukast tekjurnar um helming eða vel það. En þetta er mér nú ekki sérlegt kappsmál. Hitt þykir mér vera aðalatriði, hvernig heimt er til sjóðsins, og held eg að því mætti haga betur á annan hátt en frumv. gjörir ráð fyrir. Eg vildi helzt að menn á unga aldri, t. d. um tvítugt, skyldu greiða til sjóðsins eitt skifti fyrir öll einhverja ákveðna upphæð, karlmenn mættu t. d. borga 50 kr. og konur 25 kr. Á þeim aldri eru menn jafnaðarlegast einhleypir og vinna fyrir háu kaupi. Og þegar þess er gætt, að menn eyða mestu til óþarfa á þeim aldri, þá er ekki ástæða til að ætla að þeir yrðu mun fátækari að ári liðnu, þó þeir yrðu að greiða þetta fé til sjóðsins í stað þess að eyða því á annan veg til óþarfa, margur hver.

Þegar þess er og gætt, hve margir heimilisfeður eru fátækir og munar um alt, eins og sést á því hvað oft er kvartað er undan sköttum og skyldum, þá mun fáa iðra þess að hafa losast við þetta gjald, áður en þeir áttu fyrir heimili að sjá og á meðan þeir voru hraustir heilsu. Þetta er ekki svo lítil gjaldaviðbót fyrir menn með stórri ómegð, sem oft og tíðum geta verið meira eða minna heilsubilaðir þar að auki. Á þess konar fólki kæmi eflaust sá gjaldmáti, sem eg gat um áðan, léttast niður.

Ef menn væru látnir borga í eitt skifti fyrir öll, þá mundu þau lög, sem nú gilda um styrktarsjóði fyrir alþýðufólk eiga að vera í gildi enn um allmörg ár að því er þá snertir, sem komnir eru yfir tvítugt; þeir héldu áfram að greiða gjaldið eftir þeim lögum sem nú eru í gildi.

Eg vil ekki beint bera fram breyttill. í þessa átt, heldur að eins vekja athygli nefndarinnar og deildarinnar á þessu atriði.