15.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

102. mál, vegamál

Framsögumaður (Benedikt Sveinsson):

Ræður háttv. flutnm. (S. S. og E. J.) hafa ekki getað sannfært mig um ágæti frv. þessa. Mér finst ekki ástæður þeirra veigamiklar eða mikilsverðar.

Þeir gerðu mikið úr því og lögðu mikla áherzlu á það, að landsverkfræðingurinn væri hlyntur breyt.till. Mér skildist þó fullkomlega á orðum verkfræðingsins, að bezt væri að breyta lögunum als ekki, þótt hann játaði að vísu, að þessi breyt.till. gæti komið til mála.

Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) talaði um það, að þingið væri með þessu fyrirkomulagi að spilla samvinnu og samlyndi milli sýslnanna, sem hefði verið í alla staði ágætt fyrirfarandi og þótti slíkt illa sæma alþingi. Eg get ekki skilið, að það geti spilt þessari góðu samvinnu, þótt hún sé látin haldast framvegis. Þingið fer ekki fram á að breyta neinu, það vill einmitt láta þessa góðu samvinnu sýslnanna haldast óbreytta og vantreystir þeim ekkert í því efni. En það er háttv. 2. þgm. Árn. (S. S.), sem er með öndina í hálsinum um samvinnuna og skorar nú á alþingi að afnema hana með lögum til þess að afstýra ófriði og ósamlyndi milli héraðanna og kemur það heldur en ekki í bága við þau fögru ummæli, er hann hafði um þá ágætu samvinnu, sem nú væri þar á milli.

Viðvíkjandi atriðinu um úttekt brautanna, þá játaði háttv. þm. það sjálfur, að henni væri borgið á meðan núverandi verkfræðingur, Jón Þorláksson, hefði hana á hendi, af því hann væri svo sanngjarn maður. Eg er á sama máli og get því ekki séð, að ástæða sé fyrir hendi að fara að breyta lögunum nú þegar, og finst heldur enga nauðsyn bera til þess að halda, að heimur fari svo versnandi, að ekki megi treysta réttsýni verkfræðinga lengur en á meðan Jóns Þorlákssonar nýtur við. En ef svo færi, þá væri réttur tími til kominn að breyta lögunum. Eg verð að telja það óheppilegt að raska nýsettum lögum, áður en séð er, hvernig þau reynast. Ef þingið fer að breyta þessum lögum, þá kemur N.-Múlasýsla með sömu kröfu, því að hún þarf að greiða ? af kostnaðinum við viðhald vegarins um Fagradal, sem allur liggur utan sýslunnar og Borgarfjarðarsýsla þarf að greiða nokkurn hluta af viðhaldskostnaði vegar, sem liggur um Mýrasýslu. Af þessu verður það ljóst, hversu afaróheppilegt er að koma með breytingar við lög, sem raska alveg grundvelli þeirra, eins og þessar breytingar gera. Það er alveg það sama, sem háttv. þm. fer fram á hér, sem hann fór fram á í öðru frv. er hann flutti hér í deildinni um það að raska núverandi prestakallaskipun. Þessi aðferð er æfinlega röng, það verður háttv. þm. að viðurkenna. Ef breyta þarf lögum, þá verður að endurskoða þau í heild sinni, en ekki að fleyga þau eða raska þeim jafnvægisgrundvelli, sem þau eru bygð á.

Eg vona því að háttv. deild verði nefndinni samdóma og felli frv.