26.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

9. mál, ellistyrkur

Jósef Björnsson:

Það hafa komið hér fram ýmsar mótbárur og athugasemdir við frumv. og nefndarálitið.

Eg er einn úr nefndinni, og skal leyfa mér að fara nokkrum orðum um það, sem sagt hefir verið.

Eg vil fyrst víkja að ræðu háttv. þm. V.-Sk. Hann taldi rétt að úthluta strax meira af styrknum en nefndin vill, því óskir manna og nauðsyn á að fá styrk úr sjóðnum yrðu ríkari heldur en á því að sjóðurinn vaxi. Eg er þm. ekki samdóma um þetta. Framsögum. hefir bent ljóslega á það, að ef úthlutað yrði minna úr sjóðnum í bráð, mundi hann vaxa örar en með því fyrirkomulagi, sem stjórnin hefir hugsað sér. Og þá mundi ekki líða á löngu áður en meira mundi nást til úthlutunar.

Hvað snertir uppástungu háttv. þm. um að menn greiddu t. d. 50 kr. og 25 kr. á tvítugs aldri eitt skifti fyrir öll, þá skal eg að eins gera þá athugasemd, að mér er fullkunnugt um, að í sveitum er margt fólk á tvítugs aldri svo efnalítið, að því mundi veitast fullerfitt að snara út þessari upphæð. Auk þess er þetta gjörbreyting á grundvelli frv. Það er líka óathugað, hvort sjóðurinn mundi vaxa svo fljótt með þessu fyrirkomulagi. Eg er auðvitað ekki mótfallinn því, að þetta verði tekið til athugunar, en eg býst ekki við að nefndin eða deildin muni hallast að því.

Það gladdi mig, sem háttv. 5. kgk. þm. sagði um breyt.till. nefndarinnar við 13. gr. frv., að hún væri góð og nytsöm. Það gladdi mig af því að eg veit að það mundi mælast illa fyrir til sveita, að tekið væri fyrir alla útgreiðslu úr sjóðnum til manna, sem ekki væru fullra 60 ára, t. d. lúinna, heilsubilaðra manna. Eg get líka hugsað mér, að einhvern tíma gæti verið svo ástatt einhversstaðar, að engir styrksþurfar væru til yfir sextugt, en hins vegar væru menn rétt innan við sextugt, slitnir og þrotnir að heilsu og fullkomlega þurfandi einhverrar hjálpar; en eftir stj.frumv. mætti ekkert borga þeim út úr þessum sjóði, heldur yrðu þeir að fara á sveit, hve nauðugt sem þeim væri það, og missa svo mannréttindi sin. Þetta gæti og orðið til þess að bægja þeim frá að geta fengið ellistyrk um nokkurra ára bil, þegar þeir hefðu náð ákveðnum aldri, þó þeir væri hans í alla staði verðugir.

Út af ræðu háttv. þm. Ak. skal eg láta það í ljós, að eg er mótfallinn tillögum hans og tel sjálfsagt, að háttv. deild muni ekki fallast á þær. Hann vill að styrkurinn verði að eins ellistyrkur, sem þar að auki á að verða bundinn að eins við háan aldur, en ekkert við þörf né verðleika. Hann vill að engar ástæður séu teknar aðrar til greina en nægilega hár aldur. Með því móti næði styrkurinn til allra manna eldri en 65 ára, og yrði þá beinlínis ellieftirlaun og ekki annað. Þetta hygg eg að sé óheppilegt, eins og ástatt er hjá oss. Stjórnin hefir heldur ekki fylgt þessu, heldur hinu, að menn væru styrksins verðir og þurfandi.