06.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (2141)

103. mál, eiðatökur

Benedikt Sveinsson:

Við komum hér fram með þingsályktunartillögu, þess efnis, að háttv. deild skori á stjórnina, að leggja fyrir næsta þing frumv. um eiðatökur hér á landi. — Eins og háttv. þingmenn mun reka minni til, kom hér fram frumv. í deildinni á þessu ári um breyting á eiðstafnum og um drengskaparorð. — Fékk það góðar undirtektir, var íhugað í nefnd og afgreitt frá deildinni með all-miklum atkvæðamun, að mig minnir, en svo féll það í efri deild. Þar sem nú málið fékk svo góðar undirtektir hér í deildinni, þá viljum við flutningsmenn ekki láta það niður falla með öllu, heldur ýta undir það með þessari tillögu, því að óvíst þykir okkur það, að stjórnin búi það í hendur á næsta þingi annars kostar.

Eg vona, að deildin sjái, að málið er þess vert, að tillagan sé samþykt. En þar sem talað hefir verið hér áður um málið svo rækilega við þrjár umræður, þá sé eg ekki frekari umræðu þurfa við af minni hendi.