06.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (2143)

103. mál, eiðatökur

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Hinum háttv. þm. Vestm. (J. M.) hefir eitthvað ekki liðið vel hér á þingi í vetur. Það hefir jafnan verið haldið, að hann kynni vel að stilla geði sínu, en á þessu þingi hefir hann hvað eftir annað gerst hálf-leiðinlega stórorður yfir því, að þingmenn skuli ekki hafa spurt hann leyfis um, hvaða tillögur þeim sýndist að koma með. Og nú er hann enn einu sinni tekinn til að »straffa« þingdeildina fyrir framkvæmdarsemi sína, og vill fara að setja henni skamt og reglur um það, hvað hún megi gera og hvað ekki. Annað veifið þykir honum þingmenn hafa verið aðgerðalausir, — ekki hvað sízt sambandslaganefndin, sem og hvað meiri hluta hennar snertir gat þó frætt hann um, að hefir starfað mikið —, en hitt kastið vítir hann þá fyrir það, að þeir geri alt of mikið, hrúgi inn alt of miklu af tillögum inn á þingið. Það gæti verið réttmætt í sjálfu sér, að finna að aðgerðaleysi, þó að mér þyki reyndar þennan þingmann varla standa það sérstaklega, því að hann hefir í þetta sinn ekki afrekað hér á þingi meira en aðrir. En hitt mætti vera vítavert að ámæla þingmönnum fyrir það, að þeir væri starfsamir og hefðu einurð á að koma fram með tillögur sínar. En þó að þingmaðurinn hefði unnið hér til nokkurs um- og tiltals er eg þó ekki að svo stöddu viðlátinn að gera honum þá áminningu, sem kanske væri efni til. — Eg er þess utan viss um það, að hann er þegar hann gætir sín samdóma oss um öll meginatriði þessarar tillögu. En honum þykir kanske eitthvað að forminu á henni, eins og vant er. Þeir eru svo vandfísa þessir lagamenn. Hann var áður á móti frumvarpi um þetta efni, af því að það kom þá ekki frá stjórninni, heldur frá einstökum þingmönnum, og hygg eg þó, að frágangurinn á frumvarpinu hafi verið full-boðlegur bæði háttv. þm. Vestm. (J. M.) og öðrum. En nú skyldi maður halda, að við hefðum gert þingmanninum til fulls hæfis, þar sem við skorum á stjórnina, að gera frumvarp úr garði um þetta efni, og leggja fyrir þingið, einmitt eins og háttv. þingm. Vestm. (J. M.) sjálfur sagði, að vera bæri. En samt er þingmaðurinn ekki ánægður. Og það verður að hafa það: Eg gefst upp við það að gera honum til hæfis. Hann verður að forláta.