06.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1571 í B-deild Alþingistíðinda. (2145)

103. mál, eiðatökur

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Eg vil geta þess, að háttv. þingmenn hafa ekki tekið það til greina, að þingtíminn er hér svo stuttur, að fjöldi nauðsynlegra mála verður eigi ræddur til hlítar, og mörgum málum er hér sökum tímaleysis ekki hægt að hreyfa í frumvarpsformi, svo að annað hvort er þá að gera að hreyfa þeim als ekki eða þá að vekja athygli stjórnarinnar á þeim með þingsályktunartillögum. Sú aðferð hefir verið marg-notuð hér á hverju þingi, stundum meira og stundum minna, enda er það alveg sjálfsagður hlutur, að þingið verður að neyta hverra þeirra ráða, sem hentugust eru í hvert sinn til þess að hreyfa málum og hrinda þeim áfram. Það er blátt áfram skylda þingmanna, því að þeir eru ekki komnir á þing til þess að sitja aðgerðalausir. Hér er því ekki að tala um neina vanbrúkun á valdi eða vopnum þingsins. Svo lengi sem þingið ekki skorar á stjórnina að gera einhverjar vitleysur eða skaðræði, er þessi aðferð ekki misbrúkuð, heldur rétt notuð.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) sagði, að hæstv. ráðherra virti ekki þingsályktunartillögurnar þess, að vera hér viðstaddur. Eg legg ekki mikið upp úr því, af því að bæði fær hann tillögurnar sjálfar allar sendar frá þinginu, og svo getur hann kynt sér umræðurnar um þær, þegar þær eru komnar út í þingtíðindunum, svo að návist hans er als ekki nauðsynleg hér fyrir hann, og við komumst um sinn af, án þess að hann sé hér viðstaddur.

Eg skal líka benda háttv. 1. þm. S,-Múl. (J. J.) á, að það hefir sjaldnast verið, að ráðherrann hafi verið viðstaddur við umræður hér á þessu þingi. Það stafar eðlilega af því, að hann er ný-búinn að taka við vandasömu embætti, og þarf að setja sig inn í margt og margvísleg störf, og hefir því lítinn tíma.

Hæstv. ráðherra var t. d. ekki viðstaddur í efri deild í gær, þegar annað eins mál og sambandsmálið var þar rætt, svo það er ekkert undarlegt, þó að hann sé ekki hér staddur nú.

Annars er það hart að heyra minni hluta þingmenn á þessu þingi vera að brigsla meiri hlutanum um aðgerða- og afkastaleysi, og undir þeim brigslafossi höfum vér þó orðið að standa frá minni hlutanum hér í deildinni, sem þó mest tafði fyrir sambandsmálinu. — Efri deild hefir og sungið sama sönginn; mönnum gafst kostur á því að heyra þar um mörg orð digurbarkalega töluð í gær.

Það, sem eftir þingið liggur í ár, er meira hlutans verk, en ekki minna hlutans.

Og vanbrúkun sé eg ekki, að þingið hafi neina haft á þingsályktunartillögum.