06.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1572 í B-deild Alþingistíðinda. (2146)

103. mál, eiðatökur

Jón Magnússon:

Það hefir verið um það talað, að meiri hlutinn hafi sýnt meiri dugnað við það að koma frá sínu nefndaráliti í sambandslagamálinu, en minni hlutinn. Mikið var, þótt meiri hlutinn gæti orðið eitthvað lítið eitt á undan. Háttv. 1. þm. Rvík. (J. Þ.) hefir frá því þing byrjaði haft sérstaka skrifstofu hér á þinginu með aðstoð utan þings til þess að búa til álit meiri hlutans, en við höfðum eina 2 eða 3 daga, og enga aðstoð utan frá. Eg skal annars ekki fara meira út í þessa sálma. Að eins skal eg geta þess, að eg er ekki alveg viss um, að það sé rétt sagt að betra sé ilt að gera en ekkert.

Út af þessari skæðadrífu af þingsályktunartillögum, sérstaklega frá háttv. 1. þm. Rvík. (J. Þ.), þá skal eg enn taka það fram, að þá er ólag mikið á, ef nauðsynlegt er, þar er meiri hlutinn stjórnar í landi, að þingið sé stöðugt að hotta á stjórnina; það er stjórnin, sem yfirleitt á að bindast fyrir framkvæmdunum, hafa frumkvæðið, og búa málin í hendur þinginu, en ekki þvert á móti, eins og nú virðist eiga að fara að tíðkast. Svo er eitt afaróheppilegt og óhyggilegt við þessar tillögur, og það er þetta, að í þeim eru oft fólgin ákvæði um einstök atriði, sem þingið er svo látið samþykkja umhugsunarlaust og út í bláinn, án þess að vita hvað það gerir.

Hvað sérstaklega snertir þá þingsál,till., sem hér er um að ræða, þá verð eg að líta svo á, að það sé rangt, að hún sé lögð fyrir háttv. neðri deild eina. Mál það, er hún er um, hefir verið hér fyrir þinginu í frumv.formi, og hefir verið felt í háttv. Ed., sem hlýtur að hafa atkvæði einnig um tillöguna. Yfir höfuð raskar það jafnvæginu milli deildanna, er önnur deild þingsins út af fyrir sig er að samþykkja þingsál.till.

Skal eg svo ekki orðlengja meira um þetta, en vona, að menn vitkist áður en langt um líður.