26.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

9. mál, ellistyrkur

Ráðherra (H. H.):

Eg fæ ekki séð, að breyt.till. nefndarinnar séu til bóta á frumv. Ástæðan fyrir því að eg get ekki hallast að tillögum nefndarinnar er ekki sú, að eg álíti ekki að aðrir en gamalmenni geti verið fullmaklegir til styrks úr þessum sjóði, heldur er ástæðan sú, að það mundi dreyfa gjaldþoli sjóðsins um of. Styrkveitingarnar yrðu svo margar, að lítið gagn yrði að þeim; það yrði ekki annað en kák, og það vildi eg ekki að væri. En þegar sjóðnum vex fiskur um hrygg, þá má alt af rýmka um starfsvið hans.

Eg held að breyt.till. sé hættuleg, því að sveitarstjórnirnar mundu sumar hverjar setja styrkinn í þá, sem liggja við sveit, og með því móti yrði sjóðurinn lítið annað en viðbót við sveitarsjóðinn. En stjórnin vildi styðja lúin og heilsubiluð gamalmenni, og einkum hjálpa þeim, sem svo eru innrættir að þeir vilja ekki á sveit fara.

Eg skal ekki tefja umræðurnar, en að eins láta þá ósk í ljós, að breyt.till. verði ekki samþ.