17.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1583 í B-deild Alþingistíðinda. (2155)

104. mál, innlend vindlagerð o. fl.

Jón Ólafsson:

Eg skal byrja á því að leiðrétta það, sem háttv. 2. þm. Rvk (M. Bl.) hefur misskilið í ræðu minni, en það var orðið »yfirskinsástæða«. Eg stend við það orð, en eg beindi því ekki til háttv. þm., heldur til atvinnurekendanna, sem munu að líkindum hafa lánað þm. dálítið af ástæðunum, er hann þóttist flytja.

Að því er vinnukonuleysið snertir, þá get eg sagt fyrir mitt leyti, að mig hefir aldrei skort vinnukonur, og oft haft þær sömu árum saman. En þrátt fyrir það er mér kunnugt um, að vinnukvennaskortur er mikill, bæði hér og til sveita og eg held, að þm. geti ekki neitað því, að maður getur þekt fleira en það, sem kemur fram við menn persónulega. Þetta mun þm. verða að játa, þótt honum sé stundum furðu létt um að neita. Eg hefi haft með blöð að gera í mörg ár, og blaðamenn vita, hvað eftirspurnin er mikil. Það er oft auglýst eftir stúlkum, en eftirspurnin er mikið meiri en auglýsingarnar, menn koma næstum á hverjum degi til þess að leita upplýsinga hjá ritstjórunum í þessu efni. Sami hörgull er á stúlkum upp til sveita.

Þm. sagðist ekki geta skilið það, að hagur einstaklingsins væri ekki ávalt hagur als þjóðfélagsins, en eins og eg sagði áðan þá getur oft farið svo, að hagur einstaklingsins sé tjón fyrir þjóðfélagið, t. d. þegar skaðinn er lagður á landið til þess að einn maður eða fáir menn geti grætt. Þetta tilfelli er ekki sérstaklega íslenzkt heldur alheimslegt. Hyggur háttv. þm. að það verði hagur fyrir þá einstaklinga, sem sviftir verða lögmætri atvinnu sinni með aðflutningsbanninu? Og játar hann þó ekki, að þetta eigi að verða hagur þjóðfélagsins. Hefir þingm. ekki heyrt getið um okurkarla, sem nota sér neyð annara til að lána þeim fé gegn 16—20% ársvöxtum. Mér er jafnvel sagt að þeir finnist hér í bæ. Þeirra einstaklingshagur er að okra, en er okur hagur þjóðfélagsins. Hver einstaklingur, sem annan féflettir, hefir hag af því, en hefir þjóðfélagið hag af, að menn séu féflettir?

Háttv. þm. sagði, að eg væri ávalt hneigður til að halda í frelsisáttina; eg get sagt það sama um hann. En hver er stefna frumv.? Er hún í frelsisáttina? Það er verndartollastefnan og ekkert annað og það eru verndartollarnir, sem komið hafa fótunum undir alt auðvaldið erlendis. Verndartollarnir eru margfalt tjón fyrir þær þjóðir, sem undir þeim búa, því að þeir leggja skatt á almenning til hagsmuna fyrir einstaklinginn og þeir mynda auðvald og viðhalda því. Því þegar tollurinn er kominn á, þá verja þeir menn, sem hann hefir auðgað, fé sínu til þess að halda honum við. Það eru þessir verndartollar, sem hafa leitt hörmungar yfir margar þjóðir og skapað þar fátækt, auðlegð og siðspillingu.

Háttv. þm. sagði, að sér væri það ekki ljóst, hvað meint væri með því að tala um óeðlilegan atvinnuveg. Sá atvinnuvegur er óeðlilegur, sem ekki getur staðið á eigin fótum, heldur verður að halda honum uppi með álögum á allan almenning til hagsmuna fyrir þá fáu menn, sem reka hann. Það getur þó verið vit í því að styðja atvinnuveg fyrst í stað, t. d. eins og smjörbúin — þegar hann miðar að því að gera afurðir landsins arðbærar, og útsjón er til, að hann geti brátt orðið sjálfbjarga.

Háttv. sami þm. viðurkendi það rétt að vera hjá mér, að almennur fólksskortur væri við sjóinn og í sveitinni, og hann sagði, að orsökin væri sú að menn kysu fremur að leika lausum hala, þegar vinna væri búin t. d. á kvöldin, heldur en að binda sig vistráðningum. Þetta getur vel verið ein af orsökunum. Eg ber ekki brigður á, að svo sé og eg vil heldur ekki neyða fólk til að binda sig. En eg vil spyrja háttv. þingd., hvort veita beri verðlaun úr landssjóði til þess að fólk geti leikið jafn-lausum hala og það vill, og er það rétt að það geri það á kostnað landssjóðs ?

Eg skal ekki fjölyrða meira um þetta. Það er grundvallarmunur á skoðunum okkar á málinu og eg býst ekki við að afstaða okkar breytist, þótt við höldum lengri ræður.