16.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (2156)

104. mál, innlend vindlagerð o. fl.

Framsögumaður minni hlutans (Magnús Blöndahl):

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) varð fremur bumbult af ræðu minni, sem eg hélt áðan, og það gaf honum ástæðu til þess að nota kröftug mótmæli, en þau sannfærðu mig samt ekki, því að ástæður hans voru meira fullyrðingar út í loftið en rökstudd mótmæli.

Hann fór mörgum orðum um það, að hér væri ekki um neina nauðsyn á atvinnu að ræða, og að þessi atvinna væri illa borguð. Stúlkurnar yrðu að leita ýmislegrar auka-atvinnu, til þess að geta lifað. Honum er máske kunnugra um þetta en mér, eg skal ekki spyrja hann um það eða leiða neinar getur að því.

Háttv. þm. tók það fram, að engin þörf væri á því að auka atvinnu hér í landi, hún væri nóg og há vinnulaun borguð og þó erfitt að fá stúlkur í vist. Eg veit reyndar ekki, hvernig hv. þm. gengur að fá stúlkur í vist, en eg þarf ekki að kvarta um það, mér hefir altaf gengið það vel og ekki orðið var við neinn vinnukonuskort. Háttv. þm. verður að gæta að öðrum ástæðum, sem liggja til þess að erfitt er að fá vinnufólk. Hugsunarhátturinn er orðinn mjög breyttur frá því sem hann var, og fólk keppir nú eftir að fá aðra vinnu, sem er frjálsari en vinnukonustaðan. Það hugsaði eg sízt, að þm. vildi lasta, þótt menn kysu að hafa sem frjálsasta atvinnu, því að hann hefir svo oft sýnt það, að hann vill vera frjálslyndur.

Háttv. þm. tók það fram, að ástæður mínar væru yfirskins-ástæður. — Hvaða heimild hefir þm. til þess að beina þessum orðum að mér? Til þess hefir hann ekki hina minstu ástæðu, og eg vil því vísa þessum orðum hans heim til föðurhúsanna, þar sem þau eiga betur heima, eg vil ekkert hafa með slík ummæli að gera.

Sami háttv. þm. neitaði því, að hagur einstaklingsins og hagur þjóðfélagsins færi saman, það er ósannað mál hjá honum, því að sú samlíking, sem hann tók fram, getur als ekki átt við hér. Hér eru engir auðmenn nú sem stendur eins og t. d. í Ameríku og víða annarsstaðar. Þess vegna stendur það enn óhrakið, að hagur einstaklingsins sé hagur landsins.

Hann gat þess, að vindlagerðin gæfi svo góðan arð, að engin ástæða væri til þess að samþ. frumv. Hann vitnaði í því tilefni til þess að hann hefði átt tal um þetta við ráðsmann stærstu vindlaverksmiðjunnar og hann skýrði frá því, að hún hefði verið arðvænleg. Eg vil spyrja þm., hvort hann hefir ekki lesið grein frá einum verksmiðjueigandanum hér, sem stóð í blaði í fyrra. Þar er skýrt frá því, að þingið með tollhækkuninni hafi pískað hann til þess að leggja þessa atvinnu niður. Það eru máske deildar meiningar um það, hverjum á að trúa. Eg fyrir mitt leyti verð þó að álíta, að atvinnurekandinn sjálfur hafi haft betra vit á þessu. Hann gat þess einnig, að hin verksmiðjan hér hefði verið véluð um nálægt 19 þús. kr. Má vera að svo reynist, en engin ástæða er til þess að nefna slíkt á nafn hér eða annarsstaðar, meðan alt er að eins laus ágizkun og ekkert annað; slíkt er miður sæmandi.

Þá talaði háttv. þm. um það, að atvinnan væri óeðlileg, en hann leiddi engin rök að því, svo eg get leitt hjá mér að svara þessari staðhæfingu hans. Eg lít svo á, að hver heiðarleg atvinna eigi það skilið af þjóðinni og þinginu, að það sé hlynt að henni, en að ekki sé verið að sparka til hennar að óþörfu.

Hann talaði enn þá um vinnukonuskortinn o. s. frv. Eg er búinn að svara því fyr í ræðu minni og þarf ekki að endurtaka það. Eg benti þá á, að breyttur hugsunarháttur væri aðalorsökin og háttv. þm. þarf ekki að hugsa sér, að hann eða aðrir geti neytt frjálst fólk til að vinna þá vinnu, sem það vill ekki vinna. Það er að eins neyðin og ekkert annað, sem getur kúgað fólkið til þess.

Eg vona, að háttv. meðnefndarmaður minn komist að þeirri niðurstöðu, að hann sjái, að ekki sé rétt að sparka þannig við þessu litla frumv. og háttv. þingdeild lofi því að lifa fyrir það fyrsta til 2. umr.