16.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1590 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

104. mál, innlend vindlagerð o. fl.

Framsögumaður minni hlutans (Magnús Blöndahl):

Eg skal vera stuttorður í þetta sinn. Það eru að eins fáein orð til 1. þm. G.-K. frsm. meiri hlutans (B. Kr.). Hann hafði þau ummæli, að iðnaður gæti aldrei þrifist hér í landi, að minsta kosti ekki svo, að svarað gæti kostnaði. Þessu vil eg mótmæla. Eg er sannfærður um, að ef rétt er að farið, á Ísland mikla framtíð sem iðnaðarland, já ef til vill meiri en mörg önnur lönd. Fossaflið er framtíðaraflið hér á landi til iðnaðar og verklegra framkvæmda. Þar erum við flestum betur settir. Hve margar miljónir hestafla eru ekki bundnar í fossum vorum? Þegar öll þau hestöfl eru leyst úr læðingi og fossarnir beizlaðir, þá er Ísland í einu vetfangi orðið með meiri iðnaðarlöndum álfunnar. Það er rétt hjá 1. þm. G.-K. (B. Kr.), að betur borgar sig nú sem stendur að kaupa ýms fataefni frá útlöndum, en búa þau til hér; þó dúkagerð borgi sig ekki sem bezt á yfirstandandi tíma, mun sá tími koma, að hún mun borga sig vel, og útrýma innflutningi frá útlöndum. Hins vegar er það alveg rétt, að okkur vanti þekkingu á, hvernig vinna eigi að ýmsu leyti, en sú þekking getur komið, og það er trúa mín og von, að hún muni aukast og vaxa með tímanum.

Að því er ensku ljáina snertir, get eg verið framsm. samdóma, að það var mesti hagur að því, að menn tóku að nota þá, en ekki fæ eg séð, hvað þeir koma þessu máli við.

Um frumv. þetta skal eg svo ekki fjölyrða meir. Eg hefi áður skýrt tekið fram ástæður þess. Að minsta kosti vona eg, að háttv. deild sýni því þá sanngirni, að lofa því að ganga til 2. umræðu.