16.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

105. mál, hvalveiðar

Ráðherrann (H. H.):

Eg er hræddur um, að þetta almenningsálit, sem hv. flutnm. byggja á, sé ekki íslenzkt, heldur sé það sýking, komin frá norðanverðum Noregi, þar sem heilmikil æsing hófst fyrir nokkrum árum gegn hvalveiðum, og var notuð þar í pólitískum kosningadeilum. Hér hefir þessi kenning náð nokkrum tökum á hugum fiskimanna einmitt þar, sem Norðmenn leggja mest leiðir sínar, sérstaklega síldveiðamenn norskir, og er það því aðallega í Múlasýslum og við Eyjafjörð, að kent hefir þessarar trúar um skaðsemi hvalveiðanna.

Það er gömul saga, að þegar fiskiveiðar bregðast um lengri eða skemmri tíma, þá reyna fiskimennirnir ætíð að finna sér til einhverja ástæðu fyrir því, hvers vegna þær bregðast. Hinar undarlegustu ástæður eru oft til fundnar, hitt og þetta er til tínt; þannig var strandferðaskipunum einu sinni þegar þau voru að byrja, gefin sök á fiskileysi hér. Menn héldu, að skröltið í skrúfunni á gufuskipunum fældi fiskinn, svo að hann stryki til hafs. Því fer fjarri, að nokkur reynsla sé fengin fyrir því hér á landi, að fiskileysi sé samfara hvalafækkun. Það mætti jafnvel segja, að reynsla manna á Vestfjörðum benti í gagnstæða átt. Þegar hvalveiðarnar voru mestar á Vesturlandi, þá var þar einnig óvenjulegt velti-ár með fiskiveiðar, og þótt nú sé mjög lítið um hvali vestra, þá er fiskur og síldarafli engu minni en áður var.

En að því er snertir Austurlandið mun hafa hittst svo á, að síldveiðar brugðust þar — eins og raunar svo oft áður — um það leyti sem hvalstöðvarnar voru að flytjast þangað, og hefir þeim þá verið kent um það. Eg get ekki séð, að það sé forsvaranlegt fyrir löggjafarvaldið að hlaupa eftir slíkum lausakenningum, sem enginn vísindamaður viðurkennir, og offra fyrir það eignum og atvinnu margra góðra íslenzkra borgara.

Vísindamenn í Noregi t. d. dr. Hjort segja að ekki geti verið neitt orsakasamband í milli hvala- og fiskiveiða. Bjarni Sæmundsson hefir einnig skrifað um þetta mál og sýnt fram á það sama.

Þótt við bönnuðum að drepa hvali hér við land, þá getum við ekki komið í veg fyrir hvaladrápið samt sem áður. Það er þegar fyrir löngu búið að banna alt hvaladráp í landhelgi hér við land, og allir hvalir, sem hér búsettir hvalveiðarar drepa, eru skotnir utan landhelgi, flestir langt til hafs. Það sem vér með lögum getum bannað, er því að eins hagnýting hvalsins hér á landi, og framleiðsla hvalafurða, sem landið hefir svo miklar tekjur af. Hvalveiðamenn drepa hvali eftir sem áður; þeir gætu t. d. komið sér upp fljótandi »stationum« og brætt þar lýsi sitt. Mismunurinn yrði aðeins sá, að þar sem hægt er að hagnýta mestalt á landi bæði kjöt og bein, til fóðurs og áburðar, þá yrði á fljótandi stöðvum að fleygja öllu nema skíðum og spiki, svo að drepa yrði tiltölulega fleiri hvali, til þess að útgerðin bæri sig. Þeir mundu einnig geta komið sér upp stöðvum á Grænlandi, Færeyjum, Suðureyjum og víðar og sótt veiðarnar þaðan hingað í höfin. En auk þess verður að muna, að hvalir eru als ekki staðbundnar skepnur, sem haldi til stöðugt á sömu stöðvunum. Hvalirnir reika víða um höfin og hið sama geta hvalveiðabátarnir gert. Það er því ómögulegt að koma í veg fyrir hvaladrápið, þótt bannað sé að hafa hvalastöðvar hér á landi.

Eins og háttv. flutnm. sögðu, varð það úr hjá Norðmönnum eftir langar deilur og stríð, að banna hvaladráp við Finnmörk um nokkurra ára bil. Tími þessi er ekki útrunninn enn, og þessvegna ekki hægt að segja um, hvort þetta bann þar verður álitið að hafa nokkur áhrif á fiskigöngurnar. Eg vil nú leyfa mér að spyrja háttv. flutnm., hvort þeim virðist ekki réttara að bíða eftir reynslu Norðmanna og sjá hvað hún segir, áður en vér förum að hlaupa út á sömu tilraunabrautina, út í einbera óvissu. Vér erum nógu oft búnir að hlaupa eftir ýmsum fiskiveiðaflugum frá Noregi, þótt vér gerum það ekki enn í þetta skifti. Eg vil t. d. minna á fiskiveiðasamþyktirnar, þær komu frá Noregi, og við tókum þær mjög dátt, eins og þær væru óbrigðult meðal til þess að ráða yfir afla og fiskigegnd. Óeðlileg atvinnuhöft, beitutakmarkanir og hinar og þessar kreddur voru leiddar í lög og haldið uppi með harðneskju. En fiskiveiðarnar brugðust eins og ekki síður, þegar því var að skifta, þrátt fyrir þetta, og margur dugnaðarmaðurinn varð af góðum afla, einmitt samþyktanna vegna.

Þegar menn voru búnir að binda sig mörgum atvinnufjötrum víðsvegar um land, án þess að finna nokkurn ágóða af því, fréttist að nú væri Norðmenn hættir við allar slíkar samþyktir, nema það er snertir nauðsynleg fyrirmæli um reglu og löggæzlu — og þá fór von bráðar líka hér trúin á samþyktirnar forgörðum, og þær fóru að hverfa. Mundi ekki hafa verið fult eins affarasælt að lofa Norðmönnum að ljúka við tilraunir sínar í þessa átt, áður en við fórum að taka eftir þvingunarráðstafanir og bannhöft, sem ekki eiga sér nægilega ljósan grundvöll á að byggja.

Í öllu falli vil eg leggja áherzlu á það atriði í málinu, að hér er að ræða um skerðing á atvinnufrelsi og eignarétti manna, sem tæpast getur staðist gagnvart ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Enn fremur vil eg taka það fram, að flestir af hinum norsk-fæddu hvalveiðamönnum, sem stöðvar eiga hér á landi, eru meðal hinna nýtustu borgara í þjóðfélagi voru, eg vil t. d. nefna Ellefsen í Mjóafirði, sem hefir verið hinn nýtasti borgari, frömuður ýmsra framfara og framkvæmda og gert stórmikið gagn bæði landinu og sveitarfélögunum, þar sem hann hefir verið. Eg hygg þeir hafi sízt til þess unnið, að vera flæmdir úr landi, eins og skaðræðismenn, og vona eg að þetta frv. verði sem fyrst látið fara veg allrar veraldar.