16.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1599 í B-deild Alþingistíðinda. (2166)

105. mál, hvalveiðar

Ráðherrann (H. H.):

Háttv. flutn.menn (J. Ól. og J. J., S.-M.) og formælendur þessa máls álíta, að hvalirnir séu skotnir rétt nálægt landi; þetta er misskilningur. Hvalveiðamennirnir senda báta sína langt norður í Íshaf; eg veit að fjöldinn af hvölum þeim, sem drepnir voru úr Ísafjarðarsýslu voru skotnir langt norður í hafi. Eg ímynda mér, að það sé undantekning, að hvalir séu drepnir nálægt fjarðarkjöftunum, og það kemur víst ekki oft fyrir, að þeir séu reknir út úr landhelgi og skotnir svo.

Flutn.m. gekk út frá, að hvalirnir væru einskonar íslenzk húsdýr, sem syntu sí og æ fram með ströndunum. Eg hefi tekið fram, að þetta er ekki rétt. Hvalirnir eru ekki staðbundnir, en fara mjög langar leiðir og halda aldrei kyrru fyrir; af þessu leiðir að hér getur ekki verið að tala um að uppræta hvalastofninn, þó hvalir séu skotnir hér fyrir norðan land. Það getur í hæsta lagi verið að tala um, að hann fælist sínar stöðvar. Hvalirnir eru vissulega ekki berandi saman við geirfuglinn, sem var staðbundinn og ófleygur, en hvalirnir mjög fljótir að rása úr einum stað í annan. Það gerir enginn að gamni sínu að taka hvalina og klappa þeim á hafi úti, þeir eru styggir og erfiðir viðfangs, og upprætingarhættan er því grýla og ekkert annað; höfin eru alt of stór til þess, að drápbann á litlu svæði hér norðan við landið geti gert til eða frá.

Sem hvalafriðunarfrumv. er frumv. ónýtt; það friðar að eins landssjóðinn fyrir peningunum, sem hvalveiðamenn borga, en hvalirnir eru jafnófriðhelgir eftir sem áður.

Í norðurhöfunum, við Ameríku og Asíu og í Kyrrahafinu geta allir drepið hvalina, eins og þeir vilja. Frumv. þetta er því að eins vindhögg, og ekki hægt að ávinna annað með því, en að friða bábiljuhugmyndir einstakra manna um áhrif hvalanna á fiskigöngur, og svala reiði þeirra, sem halda að þeir hafi orðið af veiðiskap hvalveiðanna vegna, eða sjá ofsjónum yfir gróðanum af þeim, sem stundum er þó ærið stopull.

Háttv. flutnm. (J. Ó.) sagði, að hvalveiðamennirnir hefðu ekki þegnréttindi hér á landi; jú, vissulega hafa þeir hér fullan lagarétt, að eins að undanskildum rétti innborinna manna, sem dönsk lög þarf til að fá. Þeir hafa átt hér heimili um mörg ár og koma að eins sem gestir til Noregs; hér greiða þeir alla skatta og skyldur, og tekjuskattur sá og útflutningsgjald, er þeir greiða, er stór tekjugrein fyrir landssjóð; sé öllu þessu kipt í burt, þá þarf að hugsa fyrir því að fá eitthvað í skarðið, því ekki er landssjóður sagður of ríkur samt.

Eg vona, að menn hugsi sig vel um, áður en þeir greiða atkv. með frumvarpinu.