16.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

105. mál, hvalveiðar

Flutningsmaður (Jón Ólafsson):

Eg vil spyrja hinn hæstv. ráðh. (H. H.) hvort sami maður geti verið þegn í tveimur ríkjum í senn. Það mun hann hljóta að játa að ekki sé. Hvalveiðamennirnir greiða gjöld og atkvæði í Noregi og því verð eg að halda fast við það, að þeir sé ekki íslenzkir þegnar. Það er sitt hvað að fá borgarabréf og atvinnuréttindi og að vera þegn.

Hvað það snertir, að hvalirnir sé ekki húsdýr, þá eru söngfuglarnir það ekki heldur og eru þeir þó friðaðir.

Eg hygg að mest sé af hvalveiðastöðvunum nyrzt og syðst í hinum bygða heimi, en tiltölulega lítið um miðjan hnöttinn, og það er einmitt vegna þess, að ekki borgar sig að stunda hvalveiðar nema þar sem mikið er af hvölum, og þess vegna þarf einmitt að friða þá, þar sem tilvinnandi er að veiða. Það er alveg rétt, að ekki sé svo einkar auðvelt að vinna hvali, en það er hægt að uppræta þá samt, því þeir eru ver settir en önnur sjódýr, sakir þess að þeir verða að koma upp og draga andann, og því er hægt að sjá þá og elta.

Eg vil ekki fara nánar út í málið að sinni, en geyma það til 2. umr.