26.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1609 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

108. mál, lækningaleyfi

Skúli Thoroddsen:

Eg vil að eins leyfa mér að gera stutta athugasemd til bendingar fyrir væntanlega nefnd, og er hún sú, hvort ekki væri ástæða til að setja taxta, að því er snertir borgun til manna, sem lækningaleyfi hafa, en eru þó ekki embættislæknar. Nú geta slíkir læknar sett upp þá borgun, sem þeir vilja, án þess þeim séu nokkur takmörk sett, og munu þess eigi fá dæmi, að fyrir handtök, sem héraðslæknar mega ekki taka nema t. d. 5 kr. fyrir, taka »praktiserandi« læknar 20—30 kr., eða jafnvel meira. Þetta finst mér að ætti ekki að eiga sér stað og því vildi eg leyfa mér að skjóta því til væntanlegrar nefndar, hvort ekki mundi vera heppilegt að setja inn í frumv. ákvæði um það, að »praktiserandi« læknar mættu ekki taka meira fyrir lækningar sínar, en sem svarar t. d. tvöföldu eða þreföldu gjaldi, miðað við fasta taxtann, sem embættislæknum er skylt að fara eftir.