06.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1623 í B-deild Alþingistíðinda. (2192)

110. mál, þingtíðindaprentun

Flutningsmaður (Björn Jónsson):

Frumv. það, er hér ræðir um, fer fram á að létt sé af þinginu lagaskyldu, er á því hvílir um það, að umræður á alþ. skuli birta, eins og venja hefir verið til.

Umræður um þetta mál hafa orðið nokkrar með þingmönnum á einkafundum og í fjárlaganefnd; hefir flestum komið saman um það, að æskilegt væri að spara þann kostnað, er leiðir af prentun alþt. með venjulegum hætti.

Eg hefi áður minst á það, að þessi kostnaður var á síðasta þingi 13,000 krónur, þar af 4000 til skrifara og 9000 til prentunar og annars, er að því lýtur.

Menn eru margir á eitt sáttir og eg um það, að hér sé um allmikið fé að ræða og mætti verja því til einhvers þarflegra fyrirtækis.

Skrifarar hafa nú þegar verið ráðnir af þinginu og verður þeim ekki vísað frá í þetta sinn, en hins vegar virðist óþarft að prenta ræður þingmanna. Handritin gætu legið í skjalasafni alþ. og mætti fá afrit af þeim, þegar þess yrði óskað.

Síðar meir ætti þingið að afráða í byrjun þings, hvort skrifa skuli ræðurnar eða ekki. Spurningin er að eins þessi: Á að halda lagabandinu eða ekki?

Ef því yrði létt af — sem betur væri — þá ákveður þingið, hvort prenta skuli ræðurnar eða ekki.

Og mér virðist langréttast að samþ. þetta litla frv.

Þetta er ósk margra manna, og það er einnig þörf. Auk þess hafa líka heyrst raddir almennings í þessa átt. Ein 5—6 kjördæmi hafa samþ. ályktun um þetta, og áskoranir hafa komið frá mörgum merkum mönnum, alt í þá átt, að prentun alþt. (umræðnanna) sé hætt.

Þessu máli var hreyft hér á þingmannafundi í vetur, og svo var leitað hófanna meðal ýmsra nafnkendra manna víðsvegar úti um landið. Svörin urðu flest á eina lund að spara umræddan kostnað, og var jafnvel minst á alþt. með óvirðingu, gefið í skyn að menn leituðu þar að eins að skömmum — öðru ekki.

Ef þingið vill hjálpa almenningi um þess konar rit, er að eins sé til skemtunar, þá væri miklu nær að senda mönnum út um sveitir ókeypis eintök af Úlfarsrímum eða annað þess konar.

Ef frv. þetta nær fram að ganga, þá hefi eg hugsað mér að leggja til, að gefinn verði út skjalaparturinn, þó styttur að mun, og sem viðbót gerðabækur deildanna, svo að sjá megi atkv.gr. o. fl. Og enn skyldi gefa út — sem 2. viðauka — umræður um sambandsmálið og stjórnarskrármálið. Það hefir verið kvartað yfir því, að mjög ilt væri, ef umræður um þetta mál kæmu ekki fyrir almenningssjónir. Og mér virðist það réttmætt, og hallast að því, að almenningur ætti einmitt að fá að sjá það.

Skjalaparturinn yrði þá ein bók (?: alþt.) og svo tveir viðaukar.

Eg skal drepa á það, að í skjali, sem sent hefir verið til þingsins í dag er áskorun frá 40 prenturum hér í bænum um að fella þetta frv., af því að það baki svo mörgum mönnum atvinnutjón. En þótt eg vildi verða allra manna síðastur til þess að baka mönnum slíkt tjón, þá vil eg benda á það, að ef þingið ætlaði sér að hlaupa undir bagga í þeim efnum, þá mundi hlutverk þess verða æði umfangsmikið og vandasamt. Ef skip verða að standa uppi, þá yrði þingið að fara að gera út skip, og ef mjög lítið yrði um vegavinnu eitthvert sumar, þá ætti þingið að hlaupa til að fara að láta leggja vegi til þess eins að útvega vegamönnum atvinnu, þó að það hefði als ekki ætlað sér það ella.

En sá er þó hinn mikli munur í þeim dæmum, að skip og vegir eru þarfleg og jafnvel nauðsynleg; hitt er ónauðsynlegt og líkast því að veita mönnum atvinnu við að leika sér, t. d. að hlaða vörður sér til gamans, þar sem þeirra þarf ekki við.

Það er sóun á fé, er til margs annars mætti nota til gagns og frambúðar.

Ef alþt. yrðu nú samt gefin út vegna prentaranna, hve mikil er þá hjálp sú, sem þeim er veitt með því? Ekki meiri en svo, að einungis 20. hver maður (prentari) fengi sæmilega atvinnu til næsta þings eða því sem næst.

Fer eg nær um þetta af eigin reynslu, mér er kunnugt um það frá prentsmiðju þeirri, er eg hefi yfir að ráða; og á sama máli er sessunautur minn hér í deildinni (Sk. Th.)

Hún yrði því nauðalítil hjálpin, sem mönnum yrði veitt með þessu.

Eg vænti þess, að þessu máli verði vísað til 2. umr., og vinst þá nægur tími til að athuga, hvort nægileg rök eru fyrir því eða ekki, að þessi kostur sé tekinn.

Þó að menn fallist á frv., þá má auðvitað prenta umræðurnar í þetta sinn fyrir því.