06.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (2194)

110. mál, þingtíðindaprentun

Flutningsmaður (Björn Jónsson):

Eg skal að mestu bíða að svara þangað til við 2. umr. Það er ekki þannig lagað þetta mál, að hægt sé að ræða öllu frekar um það fyr en þá.

Að öðru leyti vil eg vísa frá mér þeim aðdróttunum háttv. þm. Vestm. (J. M.), að hér liggi eitthvað á bak við annað en málefnið sjálft. Bið eg hann framvegis spara mér og öðrum slíkar aðdróttanir.

Að afbrigði voru gerð hér frá þingsköpunum, var ekki nema eðlilegt vegna þess, að komið er svo langt fram á þing; þetta mál ætti sem fyrst að verða útkljáð, hefði helzt átt að vera það í byrjun þings.

Og það er að eins villandi að vera að tala um, að frá sumum þingunum yrði prentað, en ekki sumum.

Hér er að eins um það að ræða að létta af þinginu lagabandi. Svo má ákveða, hvort það skuli nú gert eða seinna, og að hve miklu leyti.

Hitt, sem háttv. þm. Vestm. (J. M.) sagði um skjalapartinn, er ekki annað en hégómi. Skjöl þingsins þarf að prenta hvort sem er, vegna þingmanna, og þá munar minstu, þótt úr þeim sé gerð bók með stærra upplagi.

H. þm. (J. M.) gat þess, að þingræðaskriftirnar væri að nokkru leyti styrkur til handa námsmönnum, sem hefðu nú og hefðu löngum haft góða atvinnu af þeim.

En hvers vegna mætti þá ekki styrkja þá námsmenn beinlínis, með öðru móti — þar sem mikið af kostnaðinum fer hér með öllu til ónýtis?

Að það yrði stórt skarð í sögu landsins, þótt prentunin yrði aftekin, það get eg varla ímyndað mér. Og ekki eru prentaðar umræður á öðrum þingum hér á landi.

Að þingræður eru nú skrifaðar á á þessu þingi stafar af því, að búið var að ráða skrifara, og einnig af því, að handritin gæti verið hentugt að eiga..

Tímasparnaðurinn yrði mikill; þingmenn þyrftu þá ekki að verja mjög miklum tíma til þess að endursemja ræður sínar, eins og tíðkast hefir löngum. Þetta er ekki sagt þeim til hnjóðs, sem skrifað hafa eða nú skrifa hér, því að þess er ekki kostur, að skrifari, hve góður sem hann kann að vera, geti leyst starfa sinn af hendi til fullnustu. Reynslan hefir sýnt það. Skrifarar, sem orðið hafa hinir nýtustu með tímanum, voru fyrst framan af alt að því óhæfir. Þetta er óviðráðanlegt, en þó ekki nema eðlilegt.

Og nú munu þeir flestallir vera óæfðir, er skrifa hér í þinginu, en þeir geta alt um það verið fullhæfir og í rauninni vel valdir af forsetunum. En hjá því verður ekki komist, að þingmenn þurfi langan tíma til að leiðrétta ræðurnar, áður en hægt er að prenta þær.

Eg óska, að málið gangi til 2. umr. og skal svo ekki fara fleiri orðum um það að sinni.