06.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (2195)

110. mál, þingtíðindaprentun

Ráðherrann (H. H.):

Eg skal ekki lengja umræðurnar mikið; eg ætla ekki að svo stöddu að leggja neitt til málanna um það, að hve miklu leyti breyting þingræðanna er gagnleg fyrir þjóðina eða ekki.

Eg vil að eins drepa á það, sem flutnm. (B. J.) hefir lagt aðaláherzluna á, að tilgangurinn með frumv. væri að eins sá að létta af lagabandi í þessu efni. Væri svo, að til þess bæri þörf, þá hlyti sama ástæða að vera til þess að létta lagabandinu af öllum þingsköpum vorum. Það er als ekki nauðsynlegt, að fastsetja þingsköp með lögum, meira að segja ekki algengt meðal annara þjóða, heldur er tíðast, að þingin setji sér þingsköp sín sjálf, án konungsstaðfestingar. Væri svo til hagað, gæti alþing einnig í hvert skifti án lagabreytingar tekið ákvörðun um, hvort prenta skuli þingræðurnar eða ekki.

Eg álít, að það sé ekki rétt að breyta að eins þessu eina atriði á þann hátt, sem fram á er farið, með því líka, að þá yrði það samkvæmt öðrum ákvæðum þingskapalaganna löghelgað, að forsetarnir en ekki alþingi réðu því, hvort prenta skyldi alþingistíðindin eða ekki. Eg vil því helzt, að máli þessu sé skotið til nefndar í stjórnarskrármálinu, og að hún tæki til athugunar, hvort ekki mundi rétt að gera þá breyting á stjórnarskránni, að létta lagabandinu af öllum þingsköpunum, og láta alþingi sjálft setja sér þingsköp.

Eg get ekki séð, að ástæða sé til þess að flýta málinu svo mikið í gegnum deildina, að ekki sé tími til að athuga það, með því ekki er svo langt liðið á þingtímann enn.