06.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (2198)

110. mál, þingtíðindaprentun

Jón Magnússon:

Háttv. flutnm. (B. J.) segir, að spursmálið sé um það, hvort það eigi að eyða svo miklu fé í óþarfa sem útgáfa alþingistíðindanna kostar. Með frumv. er ekki gert út um það atriði, að eins lagt á vald forseta, hvort eyða eigi þessu fé eða ekki. Hér er því engin trygging fyrir því, að nokkur eyrir verði sparaður, þrátt fyrir það þótt frumv. yrði samþ. Það gæti jafnvel komið fyrir, að deildaforsetarnir yrðu ekki sammála um útgáfuna og að þingtíðindin væru svo gefin út fyrir aðra deildina en ekki fyrir hina.

Flutnm. sagði, að málið væri svo lítið; það er satt, að frumv. er stutt, en það er engan vegin ómerkilegt atriði, sem það fjallar um.