06.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (2200)

110. mál, þingtíðindaprentun

Jón Ólafsson:

Það, sem eg legg mesta áherzlu á í þessu máli, er ekki atvinnuspursmálið, heldur það að kjósendur eiga rétt á að sjá ástæður þær, sem færðar eru fyrir málunum. Það er sagt, að umræðurnar séu ekki prentaðar orðréttar, en það gerir minst til, því það sem birtist af ræðunum sýnir að minsta kosti þær ástæður, sem hafa vakað fyrir þm., sem flytja þær.

Þm. Dalm. (B. J.) hélt því mjög fast fram, að alþ.tíð. væru ekki lesin, að minsta kosti ekki í Suður-Múlasýslu, en eg hygg að h. þm. muni þar ekki kunnugri en eg — hafi ekki lengur dvalið þar en svo, ef hann hefir kastað af sér vatni upp við vegg. Eg veit af mörgum hreppum í sýslunni, þar sem þau eru keypt, bundin inn og geymd í lestrarfélögum.

Háttv. þm talaði um, að komið hefðu áskoranir úr mörgum sýslum; en hvað er hægt að meta það, sem kemur frá fáeinum mönnum? Eg hygg, að hver þm. gæti unnið sér létt verk með því móti (Bjarni Jónsson: Þá er að gera það). Enginn vafi á því að slíkt hefði verið hægðarleikur, en nú er málinu flýtt svo mikið, að enginn tími er til þess.

Eftir frumv. er það á valdi forseta, hvað prentað er og það er engin fjarstæða, sem sagt hefir verið, að með því móti gæti svo farið, ef forsetar deildanna yrðu sinn á hvoru máli, að annar léti prenta umræðurnar í sinni deild, en hinn ekki.

Eg geri ekki ráð fyrir, að málið sé flokksmál. (Björn Jónsson: Ekki flokksmál hjá meiri hlutanum). Jæja, þá er það rétt, sem eg segi. Eg býst því við, að hver greiði atkv. eftir því, sem sannfæring hans segir honum, og eg álít það heppilegast fyrir háttv. meiri hluta að gera ekki málið að flokksmáli, því annars mætti leggja það út á þann hátt, er yrði honum til lítillar sæmdar.