08.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

110. mál, þingtíðindaprentun

Jóhannes Jóhannesson:

Háttv. aðalflutningsm. þessa máls (B. J.) hefir haldið því fram, að frumv. þetta miðaði að eins til þess að afnema þá lögskipun, er gerði forsetunum að skyldu, að láta prenta ræðupart alþingistíðindanna. Hins vegar hefir hann sjálfur í dag komið fram með aðdróttun um það, að forsetar síðasta þings hefðu einmitt í þessum efnum misbeitt valdi sínu, og úr annari átt er gefið í skyn, að jafnvel einnig núverandi forsetar hafi eigi farið sem bezt með þetta vald sitt. Þetta gerir mig, sem fylgdi frumv. við 1. umr., nokkuð hikandi í máli þessu, því eg vil ekki auka vald forsetanna til þess, að enn meiri misbeiting geti átt sér stað.

Vil því gjarna styðja að því, að málið sé sett í nefnd í þeirri von, að nefndin komi fram með tillögur í þá átt, að útiloka, að misbeiting á þessu valdi forsetanna geti átt sér stað framvegis.