23.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (2222)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Framsögumaður meiri hlutans (Björn Kristjánsson):

Það hafa nú komið fram töluverð andmæli af hálfu minni hlutans í þessu máli. En mér finst það á ræðum þessara háttv. þingm., að þeir hafi farið furðu mikið utan um það, sem er eiginlega mergurinn í málinu.

Þeir hafa ekki haldið sér að því, sem eg tók fram, heldur hafa þeir farið út fyrir aðal-kjarna málsins, og hengt hatt sinn á ýms smá-atriði, er vitanlega alt af geta verið deiluefni.

Þó vil eg minnast stuttlega á það, sem háttv. framsm. minni hlutans (Jóh. Jóh.) sagði. Hann tók það fyrst fram, að hann gæti ekki fylgt þessu frumv. af því, að það væri ekki undirbúið af stjórninni. En hér er því til að svara, að stjórnin þarf hreint ekki að undirbúa þetta mál; það er ekki hægt að sækja skýrslur nema í eina átt, í öðrum áttum eru þær ekki til. Þótt stjórnin hefði haft þetta mál 1—

2 ár til undirbúnings, þá hefði hún ekki getað sótt skýrslur til annara, en nefndin gerði: til Thore-félagsins sjálfs. Það er því með öllu ástæðulaust, að stjórnin undirbúi þetta mál; nefndin hefir fengið þær upplýsingar, sem kostur er á. Eg tel þess vegna óréttmætt, er hinn háttv. framsm. minni hlutans (Jóh. Jóh.) heldur því fram, að nefndin sýni í þessu fljótfærni og skort á ábyrgðartilfinningu. Um það geta menn sannfærst af frumv. Og það ber þó ekki vott um skort á ábyrgðartilfinningu, að ekki er alt lagt upp í höndurnar á félaginu, heldur er hagur landssjóðs trygður, sem bezt má verða, en hagur núverandi hluthafa settur fullkomlega í hættu, ef um hættu gæti verið að ræða.

Háttv. framsm. minni hlutans (Jóh. Jóh.) gat þess, að upplýsingar þær, er nefndin hefir fengið, séu allar komnar frá Thore-félaginu. En hvert átti að sækja þær? Til Sameinaða félagsins? Nei, það er ekki hægt að fá upplýsingarnar annarsstaðar, en einmitt hjá Thore-félaginu. Þó höfum við einnig farið eftir Börs-skýrslunni, er eg áður hef minst á, og ekki lýgur hún. (Jóhannes Jóhannesson: Hvaðan er hún komin?) Auðvitað er sú skýrsla komin frá Thore-félaginu, því annað var ekki hægt; hún er þangað komin frá aðalfundi félagsins. Og félag, sem falsaði uppgerð á aðalfundi, og setti hana í blöð, mundi alls ekki njóta þess lánstrausts, sem Thore-félagið hefir notið.

Eg bjóst fastlega við, að fráfarandi ráðherra (H. H.) hefði sótt í hendur Sameinaða gufuskipafélagsins alt, sein þar var hægt að fá. Umboðsmaður félagsins var á fundi hjá samgöngumálanefndinni, og þá var bein skylda hans, sem annars vörubjóðanda, að sýna hvað hann hefði á boðstólum. Eg álít því, að nú sé nægilega upplýst, hvaða kjör það félag vill bjóða oss til handa.

Vitanlega má deila um það, hvort landið mundi græða á þessum nýja félagsskap eða ekki. En eg fyrir mitt leyti er sannfærður um, að það mundi verða þjóðinni til ómetanlegs gagns í öllu tilliti.

Þá gat háttv. þm. (Jóh. Jóh.) þess, að vafasamt væri, hvort annað félag en það Sameinaða fengi styrk hjá Dönum. En hér hefi eg í höndum tvö bréf, annað frá skrifstofustjóra Ólafi konferenzráð Halldórssyni, þar sem því er skýlaust lýst yfir, að Íslands ráðherrann skuli hafa full yfirráð yfir þessum gufuskipaferðastyrk, svo að það er augljóst, að það hefir ekki minstu þýðingu, hvað póstmálastjórnin segir í þessu efni.

Þá fann háttv. þm. máli þessu það til foráttu, að forréttindahlutir væri ekki nægilega tryggir. Eg skil nú reyndar varla í, að hann fái marga á sitt mál um það.

Eg álít trygginguna fyllilega áreiðanlega, þar sem 360,000 krónur þurfa að tapast, til þess að landið geti haft skaða, það er hinir almennu hlutir 300 þús. og varasjóðurinn 60 þús. kr., og vitanlegt er það, að áður til þess kæmi mundi fyrirtækið verða látið hætta. Stjórn félagsins, sem skipuð yrði að meiri hluta af Íslendingum, mundi sjá um það.

Þá kom það og fram hjá háttv. þm. að landið mundi taka það óheillaráð að skattleggja önnur skip, til þess að standast fremur samkeppnina.

Þetta þarf engan veginn að vera í því formi. Ef til þess kæmi, að skip yrðu skattlögð, mundi þetta nýja félag sæta hinu sama. Landið er líka fullkomlega sjálfrátt um að leggja á lestargjald, ef því býður svo við að horfa.

Yfir höfuð er ótti þessa háttv. þm. að eins bygður á getgátum einum og röklausum staðhæfingum.

Eg get verið fáorður gagnvart háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.); flest af því er hann sagði, var þannig vaxið, að lítil þörf er á að svara því.

Honum fórust orð á þá leið að hann hefði miklu fremur kosið, að ekkert tilboð hefði legið fyrir þinginu. Eg og við fylgismenn þessa frumv. erum á gagnstæðri skoðun. Við viljum fyrir hvern mun — þótt málið ef til vill falli hér í þinginu — að þjóðinni geti gefist kostur á að kynnast því.

Þá er það sýnilega tómur misskilningur, þar sem háttv. þm. sagði, að eg hefði nefnt Sameinaða félagið þjófafélag. Það kom mér ekki til hugar. Það er annað að segja að stolið sé úr pakkhúsum þess Sameinaða, eða að segja að félagið steli sjálft.

Þá gerði og háttv. sami þingm. þá fyrirspurn, hvers vegna Thorefélagið vildi ekki taka lán, fyrst það hefði svo ótakmarkað lánstraust.

Hann gæti alveg eins spurt um það, hvers vegna einhver einn kaupmaður tæki ekki undir sig alla verzlun landsins. En eg get frætt þennan háttv. þm. (E. J.) um það, að sá maður, sem ekki kann að haga lántökum sínum eftir efnum sínum, er heimskingi. Lántökur hvers manns eða félags verður að sjálfsögðu að standa í sæmilegu hlutfalli við efnahaginn, við hið sanna veltufé.

Aths. (B. Kr.).

— Þegar eg var að leiðrétta þessa ræðu uppgötva eg, að framsm. minni hl. (Jóh. Jóh.) hefir bætt við ræðu sína þýðingu á bréfi frá því Sameinaða, sem hann, en ekki nefndin, fékk fyrir fundinn. Þar sem nefndin hefir ekki fengið það til meðferðar, og að eins nokkrir punktar voru lesnir mjög lágt upp úr því á dönsku, gat framsm. ekki rakið það í sundur. Þessi aðferð sýnir meðal annars hvað mikið er að marka það, sem stendur í þingtíðindunum.