23.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (2226)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Björn Sigfússon:

Eg ætla mér ekki að segja margt um þetta mál. Eg vona að háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.) og allir þingdm. hafi sannfærst um, að hið eina mögulega ráð til að fá þetta mikilsverða mál rætt í þinginu, var að leggja þetta frumv. fyrir þingið. Ef þingmenn hefðu ekki fengið að sjá það, hefðu þeir heldur ekki getað dæmt um það og kosti þess. Það er útlit fyrir að umboðsmaður »Hins sameinaða« ætli að reyna að tryggja sér millilandaferðir og strandferðir hér framvegis. Því félagi er þá ekki alveg sama, hvort það heldur styrk til ferðanna eða ekki. Tilboð Thorefélagsins og frumv. þetta, sem á því er bygt, er víst það eina, sem hefir haft nokkur áhrif í þá átt, að hið »Sameinaða« kunni að lægja seglin og verða mýkra í samningum. Á þessum allra síðustu dögum hefir það flogið fyrir, að það ætlaði að bjóða eitthvað betri kjör en áður. Háttv. 2. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) var að fullyrða þetta, og vildi sanna með bréfi, sem fáir heyrðu, og svo með ýmsum fullyrðingum, sem ekkert verður lagt upp úr að svo stöddu.

Eg efast ekki um, að fyrverandi ráðherra hafi reynt að leita hófanna og fá tilboð um hagkvæmar ferðir fyrir þetta land, fá skip með kælirúmum o. s. frv., eins og síðasta þing ætlaðist til. Þrátt fyrir það hefir honum ekkert áunnist. Tilboð hins Sameinaða, sem hann lagði fram á öndverðu þingi, er engu betra en áður, og þó hafði hann heimild til að gera 8 ára samning með vissum skilyrðum. Ætla má, að hann hafi leitað fyrir sér við fleiri félög en þetta eina, en hvernig sem því er varið, er hitt víst, að í þingbyrjun nú, var stjórn Íslands engu nær takmarkinu, sem sett var af þinginu 1907.

Erindreki sá, er nú ei hér í Reykjavík, fyrir hið sameinaða, heldur fast við það, að taka ekki Hornafjörð — sem félagið feldi burt — inn á ferðaáætlunina, nema þá fyrir sérstakt gjald eða ca: 20,000 kr. Allir munn sjá, að slíkt eru afarkostir, sem ekki er gangandi að, og þarf því ekki að hæla. Allur sá bilbugur sem á honum var, — þegar nefndin talaði við hann — var sá, að hann bauðst til að láta Botníu koma í stað Láru, en þó um sumarmánuðina að eins. Að vísu mun Botnía vera töluvert betra skip en Lára; en um kælirúmið á því skipi fer tvennum sögum. Sannast hygg eg, að það sé mjög ófullkomið.

Mótmælendur þessa frumv. sækja málið með svo miklu kappi, að furðu sætir. Þeir tala um frumv. nefndarinnar, eins og það ætti að verða skipandi lög. Þeir ættu þó að sjá þann höfuðmun, sem á því er, að frumv. er bara heimildarlög fyrir landstjórnina, sem ekki má nota nema allra þeirra varúðarskilyrða sé gætt, sem inn í frv. eru sett. Öllum þeim tryggingarskilyrðum má bæta við, sem andmælendum kynni að hugkvæmast, ef þau eru á viti bygð. Ennfremur er gert ráð fyrir, að þingið kjósi menn í stjórn félagsins, ef það myndast. Hver sem fæst til að líta kapplaust á málið ætti því að geta séð, að hér þarf engin hætta að vera fyrir landið eða landssjóð.

Ekki geta þessir mótmælendur heldur bent á nokkurt annað ráð til þess að þingið og landstjórnin fái umráð yfir samgöngunum og geti hagað þeim eftir þörfum og óskum landsbúa. Hitt er fullreynt, að félag það, sem hefir haft þær samgöngur til umráða, fer altaf bara eftir sínum hagsmunum en ekki okkar, og lætur ekki setja sér lögmál að lifa eftir.

Nei — framhjá þessu ganga þeir algerlega í röksemdum sínum, berja höfðinu við steininn, og vilja ekkert nema kyrstöðuna, hlaða upp grýlum, eins og gert er við börn, sjálfsagt grýlum, sem þeir trúa ekki sjálfir að séu til.

Eg þarf als ekki að svara einstökum aðfinningum; háttv. framsm. (B. Kr.) hefir gert það svo rækilega. Að vísu mun hvorki hann né aðrir hirða um að eltast við allar fjarstæðurnar, sem varpað er fram. Það er því líkast sem þeir ætli að reyna að kæfa málið nú þegar með stóryrðum og orðafjölda. Eg býst við, að sumir kunni að taka helzt til greina mótmæli háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.), og skal þá benda á eitt eða tvö dæmi þess með hvaða vopnum hann vegur. Þegar þessi háttv. þm. talaði um lánsheimildina, kallaði hann það miljón; þetta gat ekki orðið óvart, því hann gerði það hvað eftir annað. Hann bara tvöfaldaði upphæðina sem í frv. stendur, og þó var framsm. búinn að skýra frá, að upphæðina mætti færa niður um 75 þús. kr. Sami þm. (H. H.) sagði, að tapið á »Vestu« um árið, hefði orðið 180 þús. kr., í stað þess að á pappírnum var það að eins 75 þús. kr. um árið. Ekki gat hann heldur hins, hvað landið græddi á því fyrirtæki, bæði beinlínis og óbeinlínis. Fróðum mönnum, sem hafa íhugað það, hefir talist svo til, að landið hafi grætt á því 1—l½ miljón kr. í lækkuðum farmgjöldum, sem þá voru færð niður, lækkunum fargjalda o. fl. o. fl. Loks má minnast þess, að þá fengust betri samningar á eftir hjá hinu »Sameinaða félagi«, en háttv. mótmælendur vilja líklega ekki láta gera því svipaðan grikk aftur.