23.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (2230)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Sigurður Gunnarsson:

Þetta mál, samgöngumálið, er eflaust eitthvert hið vandasamasta, merkilegasta og mikilvægasta mál, sem fyrir þinginu liggur. Eg skil svo sem hinir háttv. þm., sem andmæla þessu máli, þrátt fyrir það, þótt það sé nú komið í enn aðgengilegra form en áður var, hafi ekki gert sér eða vilja ekki gera sér ljóst, hverja kosti það hefir, og eftirtektarvert er það, að það er einkum minni hlutinn sem berst af alefli gegn því, að þingið noti nú færið til að losa sig við einveldi Sameinaða gufuskipafélagsins. — Af orðum 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) og l. þm. Eyf. (H. H.) virðist mega ráða, að þeir og minni hlutinn yfirleitt hafi tekið svo miklu ástfóstri við Sameinaða gufuskipafélagið, að ekki tjái annað að nefna en samninga við það. — Auðvitað berja þeir því við, að áhættan fyrir landið verði svo afarmikil. — En eg sé eigi betur en þeir geri þar úlfalda úr mýflugu. Úr hinu gera þeir ekkert, hvílíkt tjón landið er búið að bíða um fjölda ára af því að hafa sífelt verið bundið á klafa hins Sameinaða gufuskipafélags, og orðið að lúta geðþótta þess. Eg get fullvissað þessa háttv. þm. um það, að margir landsmenn muna vel ýmsar slæmar aðfarir þessa félags hér við land, þótt þeir virðist hafa gleymt því. Því verður eigi mótmælt, að varla mun það ár hafa komið, að félagið hafi ekki brotið samninga meira og minna, vikið út af ferðaáætlun, þegar hagur þess hefir verið annars vegar, farið fram hjá höfnum og látið ferðafólk bíða dögum og enda vikum saman sér til tjóns og gremju. Skaðabætur hefir sjaldnast verið um að ræða. Auk þess er það kunnugra en frá þurfi að segja, hversu viðmót sumra skipstjóranna gagnvart landsmönnum hefir verið, sérstaklega gagnvart alþýðu manna. Eg veit, að skipstjórar hins Sameinaða hafa verið kurteisin sjálf við ráðherrann fyrverandi og hans fylgismenn, með því að í þeim herrum hefir félagið jafnan átt hauk í horni; en af þessu hefir alþýða manna ekkert gagn.

Hins vegar stendur oss nú til boða að ná valdi yfir samgöngunum sjálfir með þeim kjörum, er eg og margir aðrir þm. verðum að telja mjög sæmileg, en áhættan hins vegar næsta lítil, ef hún er nokkur, eftir því sem tilboðið liggur nú fyrir. Nú er það landsstjórnin, sem fær heimild til að stofna hlutafélagið, eimskipaútgerðina, og stórkaupmanni Tulinius er að eins gefinn forréttur til að ganga inn í félagið með 300,000 kr. kapítali, og nú er landið als ekki bundið við að kaupa hans skip fremur en því þykir hagkvæmt. Stjórn félagsins verður í vorum höndum, en hins vegar er mikill ávinningur að hafa jafn reyndan og hygginn mann sem Tulinius, sem hluthafa og í stjórn félagsins, auk þess sem hann hefir nú þegar föst sambönd, hér við land, að því er snertir fragtir, svo mjög miklu nemur. Samkepni af hálfu hins Sameinaða eða annara félaga verður fyrir það miklu erfiðari, og ætti slíkt að draga úr ótta manna í því efni.

Óþarft þótti mér það af háttv. 2.þm. S.-Múl. (J. Ó.) að vera með dylgjur um það, að Thorefélagið væri á heljarþröminni, eða jafnvel Tulinius sjálfur. Skildi eg þm. svo, sem hann þættist vita, að Tulinius skuldaði 500,000 kr. í bönkum í Kaupmannahöfn, og væri nú tilgangurinn að láta landssjóð Íslands borga, til að forða sér frá falli. Mér virðist óviðurkvæmilegt að koma með slíkar órökstuddar staðhæfingar, um fjarverandi heiðursmenn, og nota til þess þinghelgina. Slík vopn eru jafnan fordæmanleg. (Jón Ólafsson: Þetta er alt saman ósatt). Nei, því er ver að hann viðhafði þetta orð og önnur slík. Hann nefndi bæði Thorefélagið sjálft, og sérstaklega Tulinius, sem ætti mestalla hlutina í félaginu. Eg sit svo nálægt honum, að eg heyrði glögt það sem hann sagði.

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) varð skrafdrjúgt um þann ötulleik og ósleitilegu viðleitni, er hann hefði sýnt í að fá hentug og ódýr tilboð um millilanda ferðir og strandferðir í utanför sinni í vetur. Til sönnunar því gat hann þess, að hann hefði talað um við Tulinius, hvort hann vildi ekki gera tilboð, en hann neitað því. Virtist háttv. þingm. furða sig á því, þar sem Tulinius þó hefði rétt á eftir komið með tilboð það, sem nú er til meðferðar í þingdeildinni. En mér og fleirum mun ekki þykja þetta neitt furðulegt eftir því sem undan var gengið. Tulinius hafði ekki sætt þeirri meðferð, hvorki af hálfu fyrverandi ráðherra né alþingi, að hann hefði sérlega hvöt til að semja við hann, og kysi heldur að eiga samninga við nýja stjórn.

Háttv. framsögum. minni hlutans, 2. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) var áðan að lesa upp fyrir deildinni bréf á dönsku frá umboðsmanni Sameinaða gufuskipafélagsins, sem átti að sýna og sanna, að nú væru komin glæsileg tilboð af hálfu þess félags. Raunar hygg eg, að fæstir deildarmenn hafi heyrt meir en helming innihaldsins, og virðist mér nokkuð mikið, að ætlast til þess, að þingdeildin geti bygt mikið á slíku skjali, sem hún hefir ekki haft hugmynd um, að væri til fyr en nú. Því hafa ekki hinir háttv. meðmælendur Sameinaða gufuskipafélagsins séð um það, að tilboð þessi hin glæsilegu, er þeir kalla svo, lægju þá í tíma prentuð fyrir deildinni? Eg efast að vísu ekki um það, að umboðsmaður félagsins hafi nú gefið betri kosti en áður; en hverjum mundi það að þakka öðrum en Thor Túlíníusi? Þeir þingdeildarmenn, sem að eins vilja nota Thore-félagið sem grýlu á hið Sameinaða, ættu þá að vera svo forsjálir, að bana ekki þessu frumv., er hér liggur fyrir, fyr en í fulla hnefa. Líklega vilja þeir sömu þingmenn þó ná sem beztum kostum fyrir landið hjá hinu Sameinaða.

En eins og eg hefi áður tekið fram, þá get eg ekki betur séð, en að vér eigum að nota nú færið til þess að ná samgöngunum á vort vald á þann hátt, sem frumv. þetta, með þeim umbótum, er nú eru í boði, bendir til. — Með því að ganga að þessu frumv., þá getum vér hagað ferðunum miklu haganlegra en ella fyrir landsmenn. Kælirúm fáum vér í 2 hraðskreið skip, og sjá allir, hverja þýðingu slíkt getur haft fyrir bændur og kaupmenn, að því er snertir útflutning á smjöri, kjöti og fiski. En verði nú hafnað öllum samningum við »Thore«, eru mestar líkur til, að þeir bjóðist eigi oftar, og þá þarf ekki mikinn spámann til að spá því, að hið Sameinaða nær brátt sömu tökunum og áður. Mundi þá margur sjá eftir og átelja áræðis- og framtaksleysi alþingis í þessu máli.