23.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (2242)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Jón Jónsson (S.-Múl.):

Hvorugt af því, sem háttv. framsögum. hefir sagt, er rétt, hvorki að ráðherra skýrði þinginu rangt frá tilboði gufuskipafélagsins 1907, né heldur að félagið sviki loforð

sín. Það kom ákveðið tilboð frá Sameinaða félaginu til þingsins og þingið leyfði sér að gera mjög verulegar breytingar frá því í skilyrðum þeim fyrir fjárveitingunni, er sett voru í fjárlögin Breytingar þessar gerði þingið auðvitað í þeirri von, að þær yrðu svo sþ. af því Sameinaða þegar til kæmi. En eins og kunnugt er, gekk félagið ekki að skilyrðum þingsins; enda var að sjálfsögðu laust allra mála, þar sem ekki var gengið að tilboði þess. Það er því ómögulegt að tala um nokkur svik af hálfu hins Sameinaða í þessu efni. Það er heldur ekki rétt, að þáverandi ráðherra hafi skýrt þinginu rangt frá, þar sem hann hafði í höndum skriflegt mjög greinilegt tilboð frá félaginu, sem ekki þurfti neinna skýringa við.

Úr því eg stóð upp, þá vildi eg nota tækifærið til þess að gera örstutta athugasemd við það, sem háttv. frsm. sagði í framsögu málsins í gær, þegar hann var að tala um, að einn annmarkinn við samgöngur vorar væri sá að geta ekki fengið beinar ferðir milli Þýzkalands og Íslands. Hann reiknaði, að sá skaði, sem leiddi af því að flytja vörurnar yfir Danmörku og kaupa þær þaðan, næmi að minsta kosti ½ milj. kr. árlega. Hann kom aftur að þessu atriði í dag og vitnaði þá til þessara talna og enn kom hann með það sama nú, rétt áður en hann settist niður. Eg skal nú játa, að eg tók ekki eftir, hvernig hann komst að þessari niðurstöðu, en eg get samt fullyrt, að þessi reikningur hans nær engri átt, vegna þess að hægt er að fá vörur frá Þýzkalandi án danskra milligöngumanna, og eg veit, að háttv. þm. og fleiri kaupmenn hér á landi hafa gert það. Aukakostnaðurinn verður þá að eins sá munur, sem verður á flutningskostnaðinum, ef varan er flutt yfir Danmörk en ekki beina leið til Íslands. En eg er þess fullviss, að h. flutnm. getur ekki haldið því fram, ef hann hugsar sig um, að sá kostnaður nemi nándar nærri ½ miljón kr. Allir geta sagt sér sjálfir, að það nær engri átt.