26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (2245)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Framsögumaður meiri hlutans (Björn Kristjánsson):

Nefndin hefir íhugað þetta mál rækilega, og komið með talsverðar breyt.till. Eins og háttv. þm. Dal. (B. J.) tók fram í ræðu sinni, þá er breytingin við 1. gr. þannig, að fyrirsögn frumv. orðast svo: Frumv. til laga um heimild fyrir stjórnina til þess að stofna hlutafélag til að annast eimskipaferðir landsins og taka til þess lán alt að 500 þús. kr. Hlutafé félagsins sé minst 800 þús. kr., en fari eigi fram úr 900 þúsund krónum. Hlutir landssjóðs skulu vera forgönguhlutir, sem gefa 4% á undan öðrum, og eigi má skerða fyr en þorrið er annað fé félagsins. Núverandi hluthöfum Thorefélagsins gefst kostur á, að hafa forkaupsrétt að almennu hlutunum 300 þús. kr. Félagið skal minst hafa 4 skip hentug til millilandaferða, og tvo strandferðabáta. Kælirúm skulu vera í ekki færri en tveimur hinna fyrnefndu skipa. Landssjóður á heimild til að kaupa almennu hlutina fyrir ákvæðisverð hvenær sem er. Í lögum félagsins skulu vera öll þau ákvæði, sem nauðsynleg eru til þess að tryggja rétt landssjóðs um forgönguhlutina.

2. gr. Félagið heitir Eimskipafélag Íslands og á heimilisfang og varnarþing á Íslandi. Landssjóður á að hafa forgangsrétt að arði félagsins. Stjórnina skipa 7 menn, eins og í frumv. upphaflega, 3 menn, er þingið kýs, og sé ráðherra Íslands oddamaður. Auk þess kýs alþingi 3 menn til að fara með atkvæði landssjóðs á aðal-fundum. Þessa 3 menn kýs alþingi með hlutfallskosningu. Stjórn félagsins á að annast öll skipakaup. — Hér er því allmikil formbreyting gerð. Landsstjórninni ætlað að stofna nýtt hlutafélag í staðinn fyrir að taka þátt í öðru stofnuðu félagi. Samkvæmt því verður fyrirtækið alveg innlent, þó notast sé í bili við styrk útlendra hluthafa. — Það ætti því að hverfa sú ástæða hins háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.), að við séum að taka að oss skuldir Thorefélagsins; auðvitað var hún framfærð út í bláinn, því þó landssjóður að sínu leyti hefði tekið að sér veðskuldir þær, sem á skipunum hvíldi, þá var eins gott að gera það eins og að taka lán annarsstaðar til skipakaupanna. — Síðasta grein er að efni til, eins og áður, að eins orða-breyting. Efni þessa breytta frumv. er því í stuttu máli það, að landssjóður stofnar hlutafélag og tekur Thore-félagið upp í það.

Vona eg að frumv. í þessari mynd verði aðgengilegra en áður fyrir þá, sem hafa haft svo mikinn ótta fyrir því, að þetta fyrirtæki væri glæfraráð, glæfrar að ganga inn í Thore-félagið.