26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Einar Jónsson:

Þegar eg lít á þessar breyt.till., dettur mér í hug kötturinn, sem hleypur hringum heitan graut. Það var mikið gumað af því af háttv. þm. Dal. (B. J.), að hér væri ekki að ræða um Thorefélagið, heldur nýtt félag. En tilfellið er, að engum, sem lítur á breyt.till., dylst, að þetta er alveg sama tóbakið. Úlfurinn gægist fram úr sauðargærunni í 1. gr. c. Eftir því á Thore forgangsréttinn. En hvers vegna ætti Thore að hafa forgangsréttinn, ef félagið væri ekki Thore? Það er eins og það væri hættulegt að láta menn vita, hvernig í öllu liggur. Þegar meðhaldsmenn frumv. mæta mótspyrnu, breyta þeir til, og því sagði eg í upphafi, að aðferðin minti á köttinn, sem hlypi kringum heitan graut. En mér er alveg sama, þó frv. taki þessum hamskiftum, eg er jafnt á móti því fyrir því.

Eg get ekki varist að víkja nokkrum orðum til meira hlutans í nefndinni. Mér þykir það undarlegt, að meiri hluti hennar skuli semja svo þessar breyt.till. að kalla ekki saman nefndina alla. Í annan stað vil eg spyrja, hví kemur meiri hlutinn ekki á fund þann, er minni hlutinn hafði beðið formann nefndarinnar að boða, til þess að ræða tilboð það, er meiri hlutinn hafði skorað á minna hlutann að útvega hjá Sameinaða félaginu? Eg veit ekki, hvert svarið verður. En þetta sýnir ljóslega, að hér er það kappið, sem ræður.