26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1771 í B-deild Alþingistíðinda. (2249)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Framsögumaður meiri hlutans (Björn Kristjánsson):

Eg hefi að vísu engu að svara, af því sem nú hefir sagt verið. Háttv. 1. þm. Rangv. (E. P.) talaði ekki um breyt.till. þær, er nú liggja fyrir, en ræða hans snerist öll um frumv., eins og það kom fram við 1. umr. (Eggert Pálsson: Er ekki leyfilegt að tala um það? Forseti: Jú, við 2. umr. má tala um það alt). Hinn h. þm. sagði, að »asninn væri jafnan auðþektur á eyrunum«. Eg veit nú ekki vel, við hvað hinn háttv. þm. (E. P.) á hér; en líklega hefir meining hans verið, að hér (við br.till.) gægðust fram sömu svikin sem áður (í sjálfu frumv.). En fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar skal eg lýsa því yfir, að hugsun nefndarinnar er eingöngu sprottin af þeim ástæðum, er eg skýrði ítarlega við 1. umr. þessa máls, og hirði því ekki að endurtaka það nú.

Þá hefir því og verið fleygt, að ekki fari vel á því að leggja svo mikið upp í hendurnar á ráðherranum, af því að honum sé þetta svo mikið áhugamál; þetta hefir að minsta kosti mátt lesa út úr orðum ýmsra háttv. þm. En við þessu er nú einmitt sleginn varnagli í 5. gr. frumv. Þar er skýrt tekið fram, að ráðherrann fái enga þóknun fyrir ómak sitt, enda stóð aldrei til að hann fengi neina þóknun fyrir að vera oddamaður í stjórn félagsins. Þvert á móti var ætlast til, að allir stjórnendurnir ynnu launalaust. Það ætti því ekki að þurfa að sletta því framar hér í deildinni.

Hinn háttv. 1. þm. Rangv. (E. P.) gerði lítið úr kælirúmi, þótt ætlast sé til að það sé í 2 skipum. Eg skal að vísu kannast við, að orðalagið sé ef til vill ekki sem heppilegast í þessu atriði, en það mætti laga til 3. umr. En meiningin er hér, að minst tvö millilandaskip eigi að hafa kælirúm.

Enn er verið að tala um »Botniu«; það er þó margbúið að sýna fram á, að hún hentar als ekki, að kælirúm hennar henta að eins fyrir smjör, en ekki kjöt og fisk.

Þá talaði sami háttv. þm. um hag Thorefélagsins; hann virtist reyna á allar lundir að vekja tortrygð gegn fyrirtækinu. Hann gat þess meðal annars, að hagur félagsins gæti verið svo vondur, að forstöðumaður þess sæi sér nú þann kostinn vænstan að fá aðra til að taka við öllu saman. Þetta og annað eins eru að eins illkvittnislegar getgátur, sem ekki eru svaraverðar. En eg skal enn einu sinni taka það fram, að þótt hagur Thorefélagsins væri í rauninni mjög vondur, — sem hann nú als ekki er, hann er einmitt mjög góður, — þá kemur það oss ekkert við, hér er um nýtt félag að ræða. Og ef Thorefélagið getur ekki lagt fram þessi 300 þús. kr., sem áskilin eru, þá nær það ekki lengra, þá hefir félagið mist þá heimild, sem því er ætluð í lögunum. Það er alt af hægt að segja þetta eða hitt til þess að gera einhvern hlut tortryggilegan; það má segja að þetta mál sé ekki sprottið af föðurlandsást. En slíkt eru að eins getsakir og sanna ekkert; því er fleygt fram að ástæðulausu og því ekki svaravert.

Háttv. 1. þm. Rangv. (E. P.) sagði einnig, að út úr ræðu þm. Snæf. (S. G.), er annars væri jafnan svo hógvær, hafi óbeinlínis skinið sú hugsun, að dagar þessa félags myndu nú bráðum taldir; þess vegna þyrftum vér nú að hraða oss að gera samninga við það, annars gæti það orðið of seint. Hinn háttv. þm. fann ekki aðrar ástæður til þess, að félagið býður oss að gerast hluthafar, en það, að það (félagið) væri að fara á höfuðið! Það gætu verið ýmsar orsakir til þess, að einmitt nú ríði oss á þessum samningum. Það er t. d. ekki líklegt, að Thorefélagið fari að bjóða þinginu slík kjör í 4. sinn. Félagið hefir tvisvar boðist til að taka að sér strandferðirnar upp á eigin reikning — þetta er í 3. skiftið. Það þarf því ekki að vera á hausnum, þótt oss gefist ekki kostur á slíku boði síðar. Hins vegar er eg þess fullviss, að háttv. þm. Snæf. (S. G.) hefir alls ekki meint það, sem h. 1. þm. Rangv. (E. P.) vildi fá út úr orðum hans.

Háttv. 1. þm. Rangv. (E. P.) sagði ennfremur, að eg hefði sagt á þá leið, að fyrirtækinu yrði hætt, ef Tulinius dæi. Þetta sagði eg ekki; en eg tók það fram, að ef fyrirtækið bæri sig ekki, þá hætti félagið og landssjóðsfénu mætti bjarga, það ætti samkvæmt lögunum að vera óeytt, þangað til aðrir hlutir væru eyddir. Ef Tulinius deyr, þá munu þau ráð upptekin sem annarstaðar, þar sem um félög er að ræða, að maður er látinn koma manns í stað, og félagið þarf alls ekki að leggjast niður fyrir það. Enda eru allajafna fleiri en einn maður á slíkum skrifstofum, sem eru verkinu vel kunnugir.

Hinum háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.) er ekki ástæða að svara; eg hefi hlíft mér við því hingað til, enda er vörn hans sjaldnast önnur en sú, að gera málið tortryggilegt, fara utan um aðalkjarnann, en koma ekki nærri ástæðunum. Hann hefir ekki svarað einni af þeim af ástæðum, er eg bar fram við 1. umr. þessa máls, og hirði eg því ekki að svara aukaatriðunum. Það er ekki ofsagt, þó eg segi, að öll andmælin, sem komið hafa fram gegn þessu máli hafa verið gerð meira af vilja en mætti.