26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Sigurður Gunnarsson:

Það var eitt atriði, sem eg sérstaklega ætlaði að svara. Eg heyrði af ræðu framsm. minni hluta samgöngumálanefndarinnar — eg var sem sé staddur í Ed. — , að háttv. 1. þm. Rangv. (E. P.) hefði vitnað til orða minna áður og talið mig hafa sagt, að þingið þyrfti að flýta sér að gera samninga við Thorefélagið, af því það væri á höfðinu. Slíkt lá als ekki í orðum mínum. Það er hreinasti misskilningur, eg vona ekki annað verra. Eg hefði ekki getað sagt slíkt. Framsm. minni hlutans (Jóh. J.) gat þess í síðustu ræðu sinni, að nú lægju fyrir tvö ágæt tilboð frá hinu Sameinaða gufuskipafélagi, sem bættu úr öllum sanngjörnum kröfum vorum. Það er auðvitað gott og blessað og skyldi gleðja mig sannarlega, en hvernig stendur á því, að ekki hefir verið hægt að fá þau enn þá prentuð. Það er þó sannarlega tími til þess kominn, svo að þingmenn geti kynt sér þau. En svo eg víki aftur að því, er eg í upphafi tók fram, skal eg bæta því við, að eg tók skýrt fram, er síðast var rætt um þetta mál hér í deildinni, að það væri ljóst, hvernig fara mundi, ef vér höfnuðum tilboðinu frá Thorefélaginu; þá myndu svo fara leikar, að vér yrðum að krjúpa undir fótskör Sameinaða gufuskipafélagsins. Þetta sagði eg og verð að halda við þann skilning enn. Annars vildi eg mega skjóta því til háttv. framsm. minni hlutans, hvort honum þyki viturlegt að drepa frumv. þetta, áður en samningum er lokið við hið Sameinaða.